Frækinn sigur Dana dugði ekki til

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kylian Mbappé var týndur og tröllum gefinn á Parken í kvöld.
Kylian Mbappé var týndur og tröllum gefinn á Parken í kvöld. EPA-EFE/Mads Claus Rasmussen

Danmörk gerði sér lítið fyrir og vann Frakkland 2-0 í riðli 1 í A-deild Þjóðadeildarinnar í fótbolta í kvöld. Það dugði ekki til sigurs í riðlinum þar sem Króatía lagði Austurríki 3-1 og er því komið í undanúrslit.

Danmörk mætti Frakklandi á Parken í Kaupmannahöfn í kvöld og vissi að sigur gæti komið liðinu í úrslit ef Króatía myndi misstíga sig. Danir léku frábærlega í kvöld og gerðu í raun út um leikinn með tveimur mörkum með stuttu millibili eftir rúmlega hálftíma leik.

Kasper Dolberg skoraði á 34. mínútu og fimm mínútum síðar tvöfaldaði Andreas Skov Olsen forystuna. Staðan 2-0 í hálfleik og reyndust það lokatölur leiksins. Því miður fyrir Dani þá vann Króatía 3-1 sigur í Austurríki þökk sé mörkum frá Luka Modrić, Marko Livaja og Dejan Lovren.

Króatía vinnur riðilinn með 13 stig og kemst þar með í undanúrslit Þjóðadeildarinnar. Danmörk endar í 2. sæti með 12 stig og hefur lokið keppni að sinni. Austurríki féll svo niður í B-deild.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira