Fótbolti

Mourinho slær í gegn í nýju lagi Stormzy

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stormzy og José Mourinho í myndbandinu.
Stormzy og José Mourinho í myndbandinu. Skjáskot/YouTube

José Mourinho, þjálfari Roma á Ítalíu, er í nýju lagi breska tónlistarmannsins Stormzy og á hlutverk í myndbandinu við lagið að auki.

Stormzy mætti flokka innan hinnar svokölluðu grime-senu í Bretlandi og hefur verið á meðal vinsælli tónlistarmanna landsins síðustu ár. Hann gaf út nýtt lag í gær sem ber heitið Mel Made Me Do It með meðfylgjandi myndbandi á YouTube sem hefur vakið töluverða athygli.

Gripið er í gamalt viðtal Mourinhos í laginu þar sem hann kveðst helst ekki vilja tjá sig, þá sé hann í vandræðum. Ekki nóg með það heldur er Mourinho einnig í myndbandinu með Stormzy og félögum hans.

Stormzy er mikill stuðningsmaður Manchester United en Mourinho var þjálfari liðsins um tíma. Hann hefur einnig þjálfað Chelsea og Tottenhan á Englandi.

Mourinho var ekki sá eini úr íþróttaheiminum í myndbandinu, sem er tæplega 11 mínútna langt. Fyrrum spretthlauparinn Usain Bolt er þar einnig, ásamt bresku hlaupakonunni Dinu Asher-Smith, og fyrrum fótboltamanninum Ian Wright.

Louis Theroux, Jonathan Ross, Zeze Mills og fleiri til eru einnig í myndbandinu.

Myndbandið og lagið má sjá og heyra í spilaranum að ofan. Bolt og Asher-Smith má sjá við byrjun myndbandsins, Mourinho eftir rúmar fimm mínútur og Wright eftir um átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×