Fótbolti

„Staðráðinn í því að gera vel eftir að ég kom inná“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði eina mark Íslands í dag.
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði eina mark Íslands í dag. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði sigurmark Íslands úr vítaspyrnu þegar liðið lagði Venesúela að velli í vináttulandsleik í Vín í dag. Ísak Bergmann sagði kærkomið að landa sigri þar sem sigurleikirnir hefðu ekki verið mjög margir á þessu ári.

„Tilfinningin var bara góð að geta lagt mitt af mörkum með hlaupum og baráttu eftir að ég kom inná. Ég var staðráðinn í því að gera vel eftir að ég kom inná og mjög peppaður fyrir því að fá að spila þær mínútur sem ég fékk að spila,“ sagði Ísak Bergmann í samtali við Viaplay en Skagamaðurinn spilaði rúman hálftíma í leiknum.

„Við vildum virkilega ná í þennan sigur þar sem við höfum ekki verið að vinna marga sigra í undanförnum leikjum. Það sást kannski svolítið á orkustiginu og því að barningurinn var mögulega meiri en gæðin undir lok leiksins,“ sagði miðjumaðurinn enn fremur.

„Það er frábært að fá Aron Einar og hina reynsluboltana aftur í hópinn. Aron Einar miðlar af reynslu sinni á hótelinu, á æfingum og stýrir liðinu svo vel þegar út í leikinn er komið. Mér fannst við spila heilt yfir vel í þessum leik og getum tekið heilmargt með okkur í leikinn gegn Albönum,“ sagði hann um landsliðsfyrirliðann og framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×