Erlent

Trump skipar Íslandi í flokk þriðja heims ríkja

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandarísku forsetahjónin sátu rétt fyrir aftan þau íslensku við athöfnina í Westminster Abbey.
Bandarísku forsetahjónin sátu rétt fyrir aftan þau íslensku við athöfnina í Westminster Abbey.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, gagnrýnir að Bandaríkjaforseta hafi verið skipað á bekk með þriðja heims leiðtogum við útför Bretadrottningar í gær. Bandarísku forsetahjónin sátu rétt fyrir aftan þau íslensku í kirkjunni. Trump telur að Bandaríkin hafi mátt þola vanvirðu sökum þessa. 

Þjóðarleiðtogar flyktust til London í gær til að vera viðstaddir útför drottningar, þar á meðal Biden Bandaríkjaforseti og íslensku forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. Um tvö þúsund gestir voru í Westminster Abbey.

Trump birti mynd frá athöfninni á samfélagsmiðlasíðu sinni og fáraðist yfir því að Biden hafi verið látinn sitja svo aftarlega. Á innfelldri mynd sést Biden tylla sér fyrir aftan Guðna og Elizu.

„Þetta er það sem hefur orðið um Bandaríkin á aðeins tveimur stuttum árum. Engin virðing! Hins vegar góður tími fyrir forsetann okkar að kynnast leiðtogum ákveðinna þriðja heims ríkja,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðilinn Truth.

Fyrrverandi forsetinn var ekki hættur og hélt því fram að ef hann væri enn við völd hefði hann fengið betra sæti við útförina en Biden.

„Ef ég væri forseti hefðu þau ekki sett mig þarna fyrir aftan og landið okkar væri verulega frábrugðið því sem það er núna!“

Eftir því sem Vísir kemst næst raða konungsdæmi öðru kóngafólki á fremstu bekki við athafnir eins og útförina í gær. Fyrir aftan það koma svo kjörnir þjóðarleiðtogar og er þeim raðað eftir því hversu lengi þeir hafa setið í embætti.

AP-fréttastofan segir að forsetar, forsætisráðherrar og aðrir þjóðarleiðtogar sem voru viðstaddir útförina í gær hafi almennt látið lítið fyrir sér fara. Þeir hafi lítið tjáð sig við fjölmiðla og forðast að draga athyglina frá viðburðinum.

Gærdagurinn viðburðaríki var gerður upp í Íslandi í dag í gærkvöldi. Heimir Már Pétursson fór yfir hápunkta dagsins og Kristín Ólafsdóttir, sem stödd er í Lundúnum, lýsti stemmningunni í ensku höfuðborginni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×