Sport

Kristján: Það kveikti í okkur að lenda undir

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan valtaði yfir Aftureldingu 7-1. Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar var í skýjunum eftir stórsigur. 

„Þú ert að taka svarið frá mér með spurningunni,“ sagði Kristján Guðmundsson léttur aðspurður hvort hans lið hafði þurft að lenda undir til að komast í gang. 

„Það er hægt að segja að markið sem við fengum á okkur hafi kveikt í okkur. En mér fannst við spila ágætlega í upphafi þrátt fyrir að hafa lent undir.“

Sóknarleikur Stjörnunnar var frábær sem skilaði ekki bara sjö mörkum heldur töluvert af færum og hefðu mörkin getað verið fleiri.

„Andstæðingurinn lagðist aftarlega og það tók tíma að aðlagast því en við fengum færi til að jafna og um leið og við jöfnuðum þá var þetta aldrei spurning og við fundum fullt af svæði til að spila í gegnum.“

Þrátt fyrir að vera 3-1 yfir gaf Stjarnan ekkert eftir í síðari hálfleik sem skilaði fjórum mörkum til viðbótar.

„Okkur tókst að sækja í þau svæði sem við vildum fara í. Við vissum að þær myndu mæta trítilóðar inn í síðari hálfleik og við urðum að mæta þeim í upphafi seinni hálfleiks til að fá færi líkt og við fengum í fyrri hálfleik,“ sagði Kristján Guðmundsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×