Tónlist

„Verður í vöðvaminninu að eilífu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Þær Sigga, Beta og Elín mynda hljómsveitina Systur ásamt bróður sínum Eyþóri en sveitin ferðast um landið á næstu dögum á tónleikaferðalagi.
Þær Sigga, Beta og Elín mynda hljómsveitina Systur ásamt bróður sínum Eyþóri en sveitin ferðast um landið á næstu dögum á tónleikaferðalagi. Aðsend

Hljómsveitin Systur tók eftirminnilega þátt fyrir Íslands hönd í Eurovision síðastliðið vor. Systurnar, þær Sigga, Beta og Elín, hafa notið lífsins í sumar og eru nú í óðaönn að skipuleggja tónleikaferðalag um landið sem hefst á miðvikudaginn og stendur til 27. ágúst næstkomandi. Blaðamaður tók púlsinn á Systrum og fékk að heyra frá tónleikunum, væntanlegri smáskífu og lífinu eftir Eurovision.

Hvenær kviknaði hugmyndin að þessu tónleikaferðalagi?

Hún kviknaði eftir að við komum heim frá Ítalíu. Okkur langaði að halda áfram að spila og okkur langaði sérstaklega að spila hér heima á fallega landinu okkar. Við elskum að spila saman og erum svo þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri á Eurovision sem gerði okkur kleift að koma okkur systkinunum saman og út frá því að stofna bandið Systur. Við gætum ekki verið spenntari að halda áfram að spila og semja tónlist saman. Við erum nú þegar komin með fullt af nýju efni sem á eftir að taka upp en við munum frumflytja þau lög á túrnum um landið og erum virkilega spennt fyrir því. Það verður geggjað að spila hér heima þar sem við verðum með klukkutíma tónleikasett. Það er aðeins öðruvísi en síðasti túr þar sem við spiluðum bara eitt lag aftur og aftur. 

Við erum allavegana búin að æfa Með Hækkandi Sól oftar en nokkuð annað lag, sem er auðvitað mikill plús og það lag verður í vöðvaminninu að eilífu.
Systur hlakka mikið til að ferðast um landið.Aðsend

Hvernig hefur sumarið hjá ykkur verið?

Sumarið hefur verið mjög gott. Mikið að gera, frí í skólum og leikskólum þannig rútínan hefur verið ferðalög með fjölskyldunni, spila, æfa, róló, ís og sund. Elín hefur verið spila með öðru bandi líka og ferðast út um alla Evrópu með þeim á milli þess sem hún spilar með okkur systrum og hugsar um son sinn.

Hvað finnst ykkur standa upp úr eftir þátttöku ykkar í Eurovision í vor?

Ást, kærleikur og falleg vinátta sem við eignuðumst eftir að hafa kynnst svo mikið af góðu fólki. 

Ný og spennandi tækifæri standa líka upp úr og að fá til liðs við okkur frábæra umboðsmenn, þau Önnu og Gísla, sem hjálpa okkur að halda okkur við efnið. Þau eru bara alveg best.

Hvernig leggst tónleikaferðalagið í ykkur?

Við erum ótrúlega spenntar að spila, Eyþór bróðir verður með okkur og spilar á hljómborð og rafmagnsgítar og syngur líka. Svo kemur meistari Kiddi Snær og trommar og pabbi, sem er tónlistarstjórinn okkar, kemur svo þegar hann getur. 

Það er búið að vera alveg ómetanlegt að hafa pabba með. 

Hann er auðvitað búinn að vera í bransanum lengi og túra um allan heim og er búinn að hjálpa okkur systkinunum að skipuleggja okkur varðandi æfingar og tónleika. Það hefur hjálpað okkur meira en orð geta líst! Mamma hjálpar auðvitað líka mikið varðandi tónlistina og er heimsins besta amman sem passar litlu börnin þegar þess þarf, á meðan við æfum. 

Við erum ekkert smá heppin að fá alla þessa aðstoð frá foreldrum okkar! 

Þau eru best. 

Hvað er fleira á döfinni?

Við erum á fullu að semja og stefnum á að taka upp plötu á næstu mánuðum sem verður í þjóðlagaskotnum kántrí stíl. Við vorum svo að gera dreifingarsamning við Öldu Music og Ingrooves um þrjár smáskífur og gefum út þá fyrstu, Dusty Road, þann 23. september næstkomandi. Tónlistarmyndband sem snillingarnir Hilmir Berg og Einari Eyland gerðu með okkur verður gefið út á sama tíma. Við hlökkum mikið til að deila því með ykkur.

Nánari upplýsingar um tónleikaferðalagið má finna hér.


Tengdar fréttir

Systur stóðu fyrir jafnrétti í opnunarpartýi Eurovision

Íslenski hópurinn var glæsilegur á túrkis-dreglinum í kastalanum Reggia di Venaria í dag. Systkinin tóku sig vel út í persónulegum klæðnaði og segja erlenda fjölmiðla mikið hafa spurt sig út í það hvað þau standa fyrir.

Fullkominn flutningur hjá Systrum

Systur voru landi og þjóð til sóma á Eurovision sviðinu í kvöld. Atriðið heppnaðist mjög vel, alveg eins og á öllum æfingum. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.