Erlent

Fundu mænusótt í skólpi í New York

Samúel Karl Ólason skrifar
Bólusetningar gegn mænusótt hófust árið 1955.
Bólusetningar gegn mænusótt hófust árið 1955. Getty

Yfirvöld í New York hafa greitt frá því að mænusótt (e. Polio) hafi fundist í skólpkerfi borgarinnar. Það þykir til marks um að veiran sé í meiri dreifingu meðal óbólusettra í borginni en áður var talið. Áður hafði mænusótt ekki greinst í Bandaríkjunum í meira en áratug.

Dr. Mary T. Bassett, yfirmaður heilbrigðissviðs New York-ríkis, sagði í dag að fundur mænusóttar í skólpi borgarinnar sé ekki óvæntur. Hann sé þó áhyggjuefni, samkvæmt ummælum sem AP fréttaveitan hefur eftir henni.

„Hættan gegn íbúum New York er raunveruleg en vörnin er svo einföld. Bólusetjið ykkur gegn mænusótt,“ hefur fréttaveitan eftir Dr. Ashwin Vasan, sem stýrir heilbrigðissviði New York-borgar. „Með mænusótt í dreifingu í samfélögum okkar er ekkert mikilvægara en að bólusetja börnin okkar og verja þau gegn þessari veiru. Ef þú ert óbólusettur eða ekki fullbólusettur og fullorðinn, gerðu það láttu bólusetja þig.“

Á vef Landlæknis segir þetta um að mænusótt:

„Mænusótt eða lömunarveiki er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.“

Bólusetningar gegn mænusótt hófust árið 1955 og tókst nánast því að útrýma veirunni.

Ráðamenn segja mögulegt að hundruð hafi smitast af mænusótt án þess að vita það. Flestir sem smitast sýna engin einkenni en geta dreift veirunni til annarra. Lítill hluti smitaðra sýnir einkenni og um fimm til tíu prósent þeirra geta lamast.

Minnst einni íbúi New York hefur lamast vegna veirunnar á undanförnum vikum.

Skammt er síðan embættismenn á Bretlandseyjum sögðust hafa fundið ummerki mænusóttar í Lundunum. Hins vegar hefur enginn greinst smitaður þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×