Umfjöllun: Leiknir - ÍBV 1-4 | Eyjamenn sendu Breiðhyltinga í fallsæti

Árni Konráð Árnason skrifar
ÍBV eru komnir af fallsvæðinu.
ÍBV eru komnir af fallsvæðinu. Vísir/Diego

ÍBV vann 4-1 sigur á Leikni Reykjavík á heimavelli síðarnefnda liðsins í Breiðholti í fyrsta leik 14. umferð Bestu deildar karla í fótbolta. ÍBV vann þar með annan leik sinn í röð.

Eyjamenn voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en það var strax á 8. mínútu sem að Sindri Björnsson virtist bjarga á marklínu. Eyjamenn fengu aukaspyrnu og boltinn á fjærstöng þar sem að Eiður Aron skallaði boltann inn í teig þar sem að Halldór Jón náði skotinu en Sindri Björnsson bjargaði á marklínu.

Eyjamenn héldu áfram að sækja að marki Leiknismanna og lá mark í loftinu. Það kom á 29. mínútu þar sem að Mikkel Dahl var nýbúinn að taka frábærlega við boltanum og Leiknismenn í sókn, en sending hans ónákvæm og Eyjamenn munduðu skyndisókn þar sem að Atli Hrafn gaf boltann út í teig á Alex Frey sem að setti boltann þéttingsfast við stöng, 0-1 fyrir ÍBV.

Eyjamenn héldu linnulausum sóknaraðgerðum sínum áfram og voru oft á tíð hættulega nálægt því að skora en markið kom þó ekki fyrr en á 45. mínútu. Markið gerði Atli Hrafn, sem að lagði upp fyrra markið. Telmo sendi boltann í átt að marki þar sem að Halldór Jón nær að flikka boltanum áfram og Atli Hrafn stýrir honum að lokum inn, 0-2 fyrir Eyjamönnum þegar gengið var til búningsherbergja.

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna, gerði 4 skiptingar í hálfleik og byrjuðu Leiknismenn síðari hálfleikinn með látum, en það tók þá einungis 14 sekúndur að minnka muninn. Bjarki sparkaði boltanum fram og boltinn endaði hjá Maciej sem að átti skot í varnarmann og þaðan rúllaði boltinn nær markinu þar sem að Birgir Baldvinsson náði að setja hann fram hjá Guðjóni Orra í marki Eyjamanna, 1-2 ÍBV í vil.

Það tók Eyjamenn þó einungis 7 mínútur að komast í tveggja marka forystu að nýju en það gerði Halldór Jón á 53. mínútu þegar að Eyjamenn fóru í skyndisókn þar sem að Guðjón Ernir gaf boltann fyrir markið og Halldór Jón þrumaði boltanum í þaknetið, 1-3 fyrir ÍBV.

Á 64. mínútu leiksins barst fyrirgjöf fyrir mark Leiknismanna þar sem að Birgir Baldvinsson virtist ýta í bakið á Eiði sem að hljóp fyrir framan Birgi. Helgi Mikael, dómari leiksins, var fljótur að blása af krafti í flautu sína og dæma vítaspyrnu. Eiður Aron fór á punktinn og skoraði örugglega og kom Eyjamönnum þar með í 1-4 forystu.

Vandræði Leiknismanna héldu áfram þegar að Bjarki Aðalsteinsson þurfti að yfirgefa völlinn meiddur þegar að 20 mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma, Leiknismenn kláruðu allar 5 skiptingarnar sínar á 55. mínútu og gátu því ekki skipt manni inn á og spiluðu þar af leiðandi einum manni færri það sem eftir lifði leiks. Það kom þó ekki að sök þar sem að leikurinn endaði 1-4, ÍBV í vil.

Af hverju vann ÍBV

Eyjamenn voru mun ákveðnari í leiknum og betur spilandi. Leiknismenn voru í endalausum vandræðum í öftustu línu hjá sér og voru seinir í seinni boltann.

Hverjir stóðu upp úr?

Eiður Aron vann langflesta bolta inn í teig í föstum leikatriðum og stýrði liði sínu vel í dag. Atli Hrafn og Halldór Jón voru einnig mjög góðir í liði ÍBV í dag.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Leiknismanna var alls ekki upp á marga fiska og sóknarleikurinn ekki heldur. Sigurður Höskuldsson gerði sig sekan um mistök þegar að hann kláraði skiptingarnar á 55. mínútu og Leiknismenn því færri í 20 mínútur þegar að Bjarki yfirgaf völlinn. Ofan á allt gáfu Leiknismenn mjög ódýrt víti.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn leika í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina eins og hefð er fyrir og fá í þetta skiptið Keflavík í heimsókn, leikurinn er laugardaginn 30. júlí og hefst kl. 14:00. Leiknismenn fara í Fossvoginn og mæta sjóðheitum Víkingum 3. ágúst kl. 19:15 þar sem allt verður undir.

Hermann Hreiðarsson: Frábær frammistaða í 90 mínútur

Hermann var ánægður með sína menn.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er bara risa karakter, eyjahjartað og við erum bara búnir að vera geggjaðir í síðustu leikjum – við erum búnir að vera banka á þetta, að vinna leiki og við höfum fengið svolítið af færum og í dag var þetta frábær frammistaða í 90 mínútur“ sagði Hermann og bætti við að þetta væru fyllilega verðskulduð þrjú stig.

ÍBV vann sinn fyrsta leik í síðustu umferð gegn Val, 3-2 og fylgdi frábærri frammistöðu í þeim leik eftir með 4-1 sigri í dag, Eyjamenn virðast vera að hrökkva í gang eftir erfiða byrjun í sumar.

„Það hafa verið góðar frammistöður, en við höfum ekki verið að taka stigin. Núna er stigin að koma með og það er ennþá meiri kraftur í okkur. Það er nærandi að vinna og við unnum síðustu helgi og það er ennþá meiri kraftur í dag. Við höfum farið stígvaxandi í síðustu leikjum sem að er rosa credit að vera búnir með hálft mót og ekki vinna leik. Það er samt power í okkur og tveir sigrar í röð, það er rosalega mikilvægt fyrir okkur“ sagði Hermann.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.