Sport

Siggi Sig sigur­vegari og Lands­móti lokið

Telma Tómasson skrifar
Kolskeggur frá Kjarnholtum og hinn þekkti afreksknapi Sigurður Sigurðarson tóku gullið í A-flokki gæðinga á Landsmóti hestamanna.
Kolskeggur frá Kjarnholtum og hinn þekkti afreksknapi Sigurður Sigurðarson tóku gullið í A-flokki gæðinga á Landsmóti hestamanna. Bjarney Anna/Eiðfaxi

Fjöldi gesta af Lansdsmóti hestamanna hélt heim á leið í gærkvöldi eftir glæsileg tilþrif í A-flokki gæðinga þar sem Kolskeggur frá Kjarnholtum og Sigurður Sigurðarson fóru með sigur af hólmi. 

Þar með lauk Landsmótinu sem mönnum bar saman um að hefði verið almennt vel heppnað, þrátt fyrir rysjótt veður einhverja daga.

Sigurður er mjög þekktur afreksknapi en hann hefur unnið þessa keppnisgrein hestaíþrótta einu sinni áður. Í samtali við hestamiðilinn Eiðfaxa segir Sigurður að sigurtilfinningin sé ótrúlega góð, en hann hafi verið mjög einbeittur í úrslitakeppninni og tekið stefnuna á efsta sætið.

„Kolskeggur er ótrúlegur gammur, er svo fylginn sér og beitir sér alla leið en líka alveg ofsa traustur,“ segir Sigurður við Eiðfaxa.

Gullið í B-flokki gæðinga kom í hlut hins hreyfingafallega Ljósvaka frá Valstrýtu og Árna Björns Pálssonar, en frekari fréttir af úrslitum á Landsmóti hestamanna má finna á www.eidfaxi.is

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá samantekt frá mótinu frá streymisveitunni Alendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×