Sport

Braut reglurnar með því að vera í Jordan skóm: Geri bara það sem mér sýnist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Kyrgios er afar duglegur að koma sér í vandræði.
Nick Kyrgios er afar duglegur að koma sér í vandræði. AP/Kirsty Wigglesworth

Tenniskappinn Nick Kyrgios er oftar en ekki í fréttum vegna hegðunar sinnar en ekki vegna góðrar spilamennsku. Meira segja á dögum þar sem hann hegðar sér vel þá er hann líka með uppsteyt.

Kyrgios er 27 ára Ástrali sem hefur tryggt sér viðurnefnið slæmi strákurinn í tennisheiminum með öfgafullri framkomu sinni síðustu árin. Hann er líka mjög góður í tennist þótt skapið sé að koma honum í vandræði.

Kyrgios hefur unnið fjóra leiki á Wimbledon mótinu og er kominn alla leið í átta manna úrslit eftir sigur á Bandaríkjamanninum Brandon Nakashima í sextán manna úrslitunum.

Hann hefur hins vegar tvisvar verið sektaður á mótinu fyrir slæma hegðun og er væntanlega að fá eina sektina í viðbót.

Kyrgios einbeitti sér vissulega að tennisnum í sigrinum á Nakashima en nú var það klæðaburður hans sem skapaði vandræði. Það má nefnilega aðeins klæðast hvítu þegar þú keppir á Wimbledon risamótinu í tennis.

Kyrgios spilaði leikinn í hvítu en strax eftir hann þá skipti kappinn yfir í rauða Michael Jordan skó. Hann var líka með rauða derhúfu þegar hann mætti til leiks.

Blaðamenn spurðu Kyrgios eftir leikinn hvort að hann hefði viljandi brotið reglurnar.

„Ég geri bara það sem mér sýnist,“ svaraði Nick Kyrgios en dró síðan aðeins í land.

„Ég er ekki yfir reglurnar hafinn. Ég vil bara vera í Jordan skónum mínum. Þetta er í fínu lagi. Ég skal mæta í hvítu skónum á morgun,“ svaraði Kyrgios.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×