Umfjöllun: ÍBV - Breiðablik 0-0 | Botnliðið tók stig af toppliðinu

Einar Kárason skrifar
ÍBV tók mikilvægt stig í dag.
ÍBV tók mikilvægt stig í dag. Vísir/Diego

Eyjamenn, sem voru sigurlausir á botni Bestu-deildar karla fyrir leik dagsins, gerðu sér lítið fyrir og tóku stig af sjóðheitu toppliði Breiðabliks er liðin gerðu markalaust jafntefli í Vestmannaeyjum í dag.

Gestirnir úr Kópavogi hafa verið hreint út sagt stórkostlegir það sem af er sumri og byrjuðu þeir leikinn vel. Blikar áttu fín marktækifæri á upphafsmínútum leiksins en brást bogalistin þegar það kom að því að binda endalykkju á sóknirnar. Eftir fyrsta stundarfjórðung komust Eyjamenn meira og meira inn í leikinn og fengu sín færi, án þess þó að reyna almennilega á Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks. Alex Freyr Hilmarsson, Jose Sito og Telmo Castanheira létu allir vaða að marki án þess að trufla Anton.

Þegar flautað var til hálfleiks gengu leikmenn ÍBV sáttir til búningsherbergja, enda stórgóður fyrri hálfleikur að baki þar sem toppliðið náði ekki að sýna sínar bestu hliðar.

Síðari hálfleikur var svipaður og sá fyrri þar sem bæði lið áttu sín færi en þegar leið á leikinn voru Blikarnir sterkari og hefðu hæglega getað tekið stigin þrjú. Gísli Eyjólfsson fékk upplagt tækifæri inni í teig Eyjamanna en skot hans á lofti fór himinnhátt yfir markið.

Bæði lið sóttu til sigurs en á endanum voru það varnir beggja liða sem stóðu uppúr og markalaust jafntefli niðurstaðan. Níutíu mínútur af hörku, skemmtun og öllu þar á milli. Stig á lið sanngjörn úrslit.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira