Sport

Eigandi Arsenal fagnar: Snjóflóðið frá Colorado bandarískur meistari í íshokkí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Landeskog, fyrirliði Colorado Avalanche, lyftir hér Stanley bikarnum fræga eftir sigurinn á Tampa Bay Lightning í nótt.
Gabriel Landeskog, fyrirliði Colorado Avalanche, lyftir hér Stanley bikarnum fræga eftir sigurinn á Tampa Bay Lightning í nótt. AP/Phelan Ebenhack

Colorado Avalanche er NHL-meistari í íshokkí í ár eftir sigur í úrslitaeinvíginu á móti Tampa Bay Lightning en úrslitin réðust í sjötta úrslitaleiknum í nótt.

Avalanche liðið vann lokaleikinn 2-1 í nótt og þar með einvígið 4-2. Liðið hafði komist í 2-0 og 3-1 í einvíginu.

Tampa Bay Lightning var búið að vinna Stanley bikarinn undanfarin tvö ár en varð nú að sætta sig við silfrið.

Þetta er í fyrsta sinn í 21 ár sem Colorado Avalanche vinnur þennan veglega bikar sem er 90 sentimetra hár og fimmtán kíló á þyngd.

Steven Stamkos kom heimamönnum frá Flórída í 1-0 en það dugði ekki til að tryggja oddaleik því mörk frá Kanadamanninum Nathan MacKinnon og Finnanum Artturi Lehkonen tryggðu Colorado liðinu titilinn.

Cale Makar, 23 ára Kanadamaður, var kosinn mikilvægasti leikmaður lokaúrslitanna.

Þetta þýðir jafnframt það að Stan Kroenke, eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal, á bæði NFL- og NHL-meistarana í ár. Los Angeles Rams liðið vann Super Bowl í febrúar og hann á einnig lið Colorado Avalanche. Kroenke á fleiri lið eins og Denver Nuggets í NBA-deildinni og MLS-liðið Colorado Rapids.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×