Enski boltinn

Pabbi Rúbens Dias skallaði Noel Gallagher

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má fékk Noel Gallagher má skurð eftir viðskiptin við pabba Rúbens Dias.
Eins og sjá má fékk Noel Gallagher má skurð eftir viðskiptin við pabba Rúbens Dias. getty/Cameron Smith

Sauma þurfti nokkur spor í einn þekktasta stuðningsmanns Manchester City eftir að faðir leikmanns liðsins skallaði hann í fagnaðarlátunum þegar City varð Englandsmeistari í gær.

City lenti í kröppum dansi gegn Aston Villa í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær. Gestirnir frá Birmingham komust í 0-2 en City svaraði fyrir sig með því að skora þrjú mörk á fimm mínútum og tryggði sér þar með Englandsmeistaratitilinn í fjórða sinn á síðustu fimm árum.

Stuðningsmenn City ærðust af fögnuði, meðal annars faðir portúgalska varnarmannsins Rúbens Dias, sem endaði á því að skalla Noel Gallagher, fyrrverandi forsprakka Oasis og mikinn City-mann. Hann sagði talkSPORT frá atvikinu á Etihad. 

„Þegar við skoruðum þriðja markið varð allt brjálað. Fjölskyldan hans Rúbens Dias var nokkrum röðum fyrir ofan okkur. Ég hoppaði um eins og fáviti, veifaði syni mínum eins og hann væri Englandsmeistarabikarinn og allir lyftu honum,“ sagði Gallagher.

„Ég sneri mér við og pabbi Rúbens Dias hljóp beint á mig og skallaði mig. Ég lá eftir, ataður í blóði. Ég sá ekki lokin á leiknum því ég var sendur á sjúkrahús. Það voru saumuð nokkur spor í vörina á mér og ég fékk tvö glóðaraugu.“

Eftir á rakst Gallagher á Pep Guardiola, knattspyrnustjóra City. Þeir féllust í faðma og Gallagher sagði Spánverjanum svo að hafa ekki áhyggjur af sér og vera með leikmönnunum sínum.

Að sögn Gallaghers sást ekkert á pabbanum. „Hann fékk ekki skrámu. Hann er tröll að burðum. Hann braut næstum því tennurnar í mér.“

Gallagher var á tónleikaferðalagi þegar City tryggði sér Englandsmeistaratitilinn á eftirminnilegan hátt 2012 en fékk að upplifa dramatíkina í gær, þótt hann hafi misst af lokamínútunum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.