Fótbolti

Leipzig bikar­meistari eftir sigur í víta­spyrnu­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fagnaðarlæti RB Leipzig voru ósvikin.
Fagnaðarlæti RB Leipzig voru ósvikin. EPA-EFE/Ronald Wittek

RB Leipzig varð í kvöld þýskur bikarmeistari í fótbolta eftir sigur á Freiburg. Það þurfti vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara eftir að staðan var jöfn 1-1 að loknum venjulegum leiktíma.

Maximilian Eggestein kom Freiburg yfir á 19. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Þegar tæp klukkustund var liðin fékk Marcel Halstenberg beint rautt spjald í liði RB Leipzig fyrir glórulausa tæklingu og Freiburg í frábærum málum.

Manni færri tókst Leipzig samt að jafna metin, að sjálfsögðu var það hinn sjóðandi heiti Christopher Nkunku sem gerði það og allt jafnt þegar þrettán mínútur voru til leiksloka.

Ekki urðu mörkin fleiri og því þurfti að framlengja. Þar var ekkert skorað en Kevin Kampl – leikmaður Leipzig, sem var kominn út af – tókst að næla sér í sitt annað gula spjald og láta þar með reka sig upp í stúku áður en framlengingunni lauk. Staðan enn 1-1 og því þurfti að fara í vítaspyrnukeppni.

Þar reyndust Leipzig-menn sterkari en þeir skoruðu úr öllum fjórum spyrnum sínum en Christian Gunter og Ermedin Demirovic brenndu af fyrir Freiburg. Fór það svo að Leipzig vann vítapsyrnukeppninni 4-2 og bikarmeistaratitillinn því þeirra í ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.