Innlent

„Ég hef ekki séð neitt enn þá sem að segir mér að lög hafi verið brotin“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir mikilvægt að farið verði ofan í saumana á málinu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir mikilvægt að farið verði ofan í saumana á málinu. Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðherra telur að sýna þurfi þolinmæði á meðan rannsókn á sölu Íslandsbanka stendur yfir. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni stjórnarandstöðunnar og fullyrðir að málið verði kannað. Hann segir þó ekkert benda til þess á þessum tíma að lög hafi verið brotin og vill ekkert gefa upp um hvort hann myndi segja af sér, kæmi slíkt brot upp. 

Ríkisstjórnin ákvað í dag að leggja Bankasýslu ríkisins niður vegna sölunnar á Íslandsbanka, sem hefur sætt mikilli gagnrýni, og tilkynnti að málið yrði lagt fyrir Alþingi á næstunni. Bankasýslan svaraði með því að hún teldi að framkvæmdin hafi verið í fullu samræmi við vilja stjórnvalda.

Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið kanna nú söluna en fjármálaráðherra hefur sömuleiðis sætt mikilli gagnrýni í tengslum við málið. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði þeirri gagnrýni í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Hann sagðist ekki líta á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í dag sem viðurkenningu um að víða hafi verið pottur brotinn við söluna.

„Það sem að sem snýr að útboðinu sem er nýafstaðið, það hefur verið sent til skoðunar og við bíðum úttektar á því. Ég held að það sé rétt að sýna þolinmæði þar til að sú niðurstaða liggur fyrir og vera ekki að fella stóra dóma til að það er komið í hús,“ sagði Bjarni í viðtalinu.

Stjórnarandstaðan alltaf á „háa C-inu“

Hann sagði mikilvægt að farið verði ofan í saumana á málinu og það sé verið að gera með rannsókn Ríkisendurskoðunar og fjármálaeftirlitsins. Hann sagði þó margt hafa tekist vel við söluna og því beri að halda til haga. 

Þá gaf hann lítið fyrir gagnrýni stjórnarandstöðunnar í dag og sagðist ekki eiga von á að þingið kæmi saman fyrr.

„Stjórnarandstaðan er auðvitað alltaf á háa C-inu og með allt á hornum sér, það er ekkert nýtt í því. Það mun gefast góður tími til að ræða þetta mál og við munum ekkert gera í því til þess að þrengja að möguleikum þingsins til þess að fjalla um málið og fara ofan í saumana á því,“ sagði Bjarni.

Aðspurður um hvort hann skildi þó gagnrýnina, ekki aðeins frá stjórnarandstöðunni heldur einnig almenningi, sagðist Bjarni gera það að vissu leiti.

„Auðvitað skil ég það þegar það vaknar sú tilfinning að það sé ekki fullt jafnræði varðandi aðgengi að útboði eins og ég hef heyrt haldið fram í þessu tilviki. Þá sýni ég því að sjálfsögðu fullan skilning vegna þess að jafnræði er eitt af því helsta sem við þurfum að passa upp á,“ sagði Bjarni.

Ekki tímabært að tjá sig um afsögn

Hann sagði það þó hafa legið fyrir strax í upphafi að mikil óvissa myndi fylgja þessari stóru aðgerð. Þau atriði sem hafa sætt hvað mestri gagnrýni þurfi vissulega að skoða og ef það reynist rétt að söluaðilar hafi ekki náð að gæta að hagsmunaárekstrum, þá sé það alvarlegt. 

Enn sem komið er hafi þó ekkert komið upp sem bendir til lögbrots.

„Ég hef ekki séð neitt enn þá sem að segir mér að lög hafi verið brotin. Ég hef ekki séð neitt en við getum ekki starfað áfram í einhverjum skugga þess eða í einhverjum vafa um það, þess vegna er þetta til skoðunar,“ sagði Bjarni.

Þá sagði hann ekki tímabært að tala um mögulega afsögn ef það kemur í ljós að lög hafi verið brotin. 

„Það er algjörlega útilokað að tjá sig út í loftið um eitthvað sem mögulega verður einhvern tímann síðar. Það fer allt eftir aðstæðum og forsendum sem þá munu birtast,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir

Krefjast að þing komi strax saman vegna nýrra vendinga

Allir stjórnarandstöðuflokkar á Alþingi hafa krafist þess að þing komi saman vegna nýrra vendinga í tengslum við söluna Íslandsbanka. Að óbreyttu verður næsti þingfundur ekki haldinn fyrr en mánudaginn 25. apríl.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.