Sport

Besta tenniskona heims er nú tvítug pólsk stelpa: „Grét í fjörutíu mínútur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iga Swiatek fagnar sigri sínum í Miami um helgina.
Iga Swiatek fagnar sigri sínum í Miami um helgina. AP/Wilfredo Lee

Iga Swiatek fagnaði ekki aðeins sigri á Opna Miami-mótinu í tennis um helgina heldur náði hún um leið tímamótaárangri á sínum ferli.

Swiatek vann öruggan 6-4 og 6-0 sigur á Naomi Osaka í úrslitaleiknum í Miami.

Ashleigh Barty hefur verið í efsta sæti heimslistans í tennis en Ástralinn tilkynnti á dögunum að hún væri hætt.

Það kom sér vel fyrir Swiatek sem komst upp í efsta sæti heimslistans með þessum sigri.

Swiatek er aðeins tvítug en hefur verið á mikilli sigurgöngu að undanförnu. Hún hefur nú unnið sautján leiki í röð og vann bæði stór mót í Doha og Indian Wells á síðustu vikum.

Swiatek vakti fyrst athygli þegar hún vann Opna franska meistaramótið sem táningur.

Breska ríkisútvarpið fékk viðbrögð frá Igu Swiatek eftir sigurinn um helgina og sætið á toppi heimslistans.

„Ég grét í fjörutíu mínútur. Aðallega út af því að Ash væri hætt. Ég átti ekki von á því og fréttirnar komu mér því mikið á óvart,“ sagði Iga Swiatek.

„Ég sá alltaf fyrir mér að við myndum allar spilar þar til að við værum orðnar 35 ára gamlar eða þar til að líkamar okkar væri svo þreyttir að við gætum ekki spilað lengur,“ sagði Swiatek.

„Ég þurfti tíma til átta mig á því sem hún gekk í gegnum. Hún sýndi hugrekki með því að taka þessa ákvörðun og þetta var mjög tilfinningaríkt fyrir mig,“ sagði Swiatek.

„Ég var líka tilfinningasöm vegna minnar eigin stöðu. Eftir tvo tíma þá hugsaði ég: Heyrðu, þú veist ekki hvað mun gerast og þú verður að vinna einhverja leiki í viðbót,“ sagði Swiatek.

„Ég sagði því við mig sjálfa. Bíðum með tilfinningarnar því það er verk að vinna,“ sagði Swiatek. Hún gerði það svo sannarlega og er nú besta tenniskona heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×