Menning

Reynsluheimur kvenna og kynlíf yfirfærð á strigann

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Myndlistarkonan Aldís Gló Gunnarsdóttir opnar sýninguna TABÚ í Gróskusalnum á morgun en sýningin er bönnuð innan sextán ára.
Myndlistarkonan Aldís Gló Gunnarsdóttir opnar sýninguna TABÚ í Gróskusalnum á morgun en sýningin er bönnuð innan sextán ára. Aðsend

Listakonan Aldís Gló Gunnarsdóttir opnar þriðju einkasýningu sína í dag í Gróskusalnum á Garðatorgi 1. Sýningin ber nafnið TABÚ og er bönnuð innan sextán ára. Eins og titill sýningarinnar gefur til kynna skoðar Aldís viðfangsefni sem hafa jafnvel verið tabú í samfélagslegri umræðu og yfirfærir meðal annars reynsluheim kynlífs frá kvenmanns sjónarhorni á strigann. Blaðamaður tók púlsinn á Aldísi og fékk að heyra nánar frá listsköpun hennar.

Form frá veruleika kvenna

„Ég sæki gjarnan innblástur í allt í kringum mig,“ segir Aldís. „Í form, liti, ljós og skugga en stundum leitast ég við að mála lífið eins og það birtist hvort sem það er með andlitsmyndum eða líkamstjáningu. Í núverandi sýningu sæki ég form í veruleika kvenna. 

Þar sem konan er sterk og nýtur sín í þeim aðstæðum sem hún er í. Heimurinn er hennar, aðstæður eru hennar og valið er hennar. Konan er sterk, sjálfstæð og ríkjandi.“

Faldi verkin í fyrstu

Aldís byrjaði að undirbúa sýninguna síðastliðið haust svo hún hefur verið í um átta mánuði í vinnslu. Kveikjan að sýningunni var að Aldís vildi fara út fyrir boxið.

„Ég upplifði mig svolítið staðnaða og fann að ég málaði mikið það sem var safe. Ég var búin að vera lengi í portrett myndum sem þarfnast mikillar nákvæmni og var orðin ögn leið á því. Bakgrunnurinn minn úr listaskóla er mikil módelteikning þar sem líkaminn er teiknaður frá ólíkum sjónarhornum með ólíkum hætti og ég hafði einhvern veginn aldrei almennilega nýtt mér þá kunnáttu að neinu ráði. 

Það var svo einn góðan veðurdag þar sem ég var að ræða þetta við manninn minn að hann hvatti mig til að fara út fyrir þægindarammann og mála það sem mig langaði en ekki endilega það sem passaði við sófann og þar með kviknaði þessi hugmynd, að mála líkama og tvinna kynlíf og þá reynsluheim kvenna inn í þemað.“

Í upphafi þótti Aldísi erfiðara að sýna gestum þessi verk en það vandist þó fljótt.

„Ég verð þó að játa að ég var ögn feimin við þetta til að byrja með og passaði að þeir sem komu í heimsókn sæju ekki verkin en svo vandist þemað og á endanum var ég farin að gleyma að fela verkin fyrir þeim sem ég hefði kannski átt að fela þau fyrir,“ segir Aldís og hlær. 

„Í sögulegu samhengi eru ekki margar konur sem hafa farið alla leið þangað sem ég er að fara en þó finnast einhverjar sem eru þá tiltölulega óþekktar. Hins vegar hafa konur auðvitað verið málaðar frá öllum sjónarhornum frá örófi alda.

Ég upplifði líka pínulítið sjálf eigin fordóma þegar ég byrjaði að mála sem spratt af þeirri gamaldags hugsun að svona eigi konur ekki að haga sér.

Að konur eigi ekki að leyfa sér að sýna þessar hliðar á annars eðlilegu mannlegu eðli. Þegar efinn læddist að mér þá voru þeir sem eru næstir mér fljótir að blása á hann og hvetja mig áfram.“

Hvetur konur til að beygja ríkjandi norm

Aldís segist upplifa viðhorfsbreytingu í samfélaginu og þá sérstaklega út frá kraftmiklum konum sem taka pláss.

„Mér finnst umræðan hafa breyst svolítið og finnst mér það sjást einna best á ungu konunum sem eru að búa sér til pláss í menningunni.

Nærtækast er að nefna Reykjavíkurdætur sem hafa samið texta sem ekki hefðu þótt sæma þegar ég sjálf var á þeirra aldri, hvað þá foreldrar mínir. Ég upplifi líka að finnast nauðsynlegt að við tökum allar þátt í að breyta ríkjandi viðhorfum og látum það ekki bara í hendurnar á einhverjum öðrum heldur leggjum eitthvað að mörkum sjálfar. Með þeim orðum hvet ég aðrar konur til að beygja ríkjandi norm, hvernig svo sem það birtist hverri og einni,“ segir Aldís.

Sýningin opnar sem áður segir í dag, 26. mars, frá klukkan 14:00-17:00 og er opin til 10. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×