Sport

Hættir óvænt aðeins 25 ára gömul og í efsta sæti heimslistans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashleigh Barty kyssir bikarinn sem hún vann á heimavelli á Opna ástralska meistaramótinu í tennis í janúar.
Ashleigh Barty kyssir bikarinn sem hún vann á heimavelli á Opna ástralska meistaramótinu í tennis í janúar. EPA-EFE/DEAN LEWINS

Nýkrýndur meistari á Opna ástralska risamótinu í tennis tilkynnti í dag, flestum að óvörum, að keppnisferli hennar væri lokið. Það er óhætt að segja að þessar fréttir hafi komið mörgum á óvart enda hefur hún verið í frábæru formi að undanförnu.

Ástralska tenniskonan Ashleigh Barty er aðeins 25 ára gömul og er eins og er í efsta sæti heimslistans. Sigur hennar á Opna ástralska risamótinu fyrir tveimur mánuðum var þriðji sigur hennar á risamóti.

„Ég er svo ánægð og svo tilbúin að hætta. Ég veit, í hjarta mínu, að þessi tímapunktur er réttur fyrir mig sem persónu,“ sagði Ashleigh Barty í sex mínútna myndbandi á Instagram síðu sinni en það mátti þó heyra það á henni að þetta reyndi á.

Barty talaði um að nú væri kominn tími á það fyrir hana að elta aðra drauma í lífinu og hún er ekki lengur bundin því að gera allt sem þarf að gera til að keppa í tennis.

Í nóvember tilkynnti Barty um trúlofun sína og golfkennarans Garry Kissick en þau hafa verið saman frá árinu 2016.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég segi þetta upphátt og já það er erfitt að segja þetta,“ sagði Barty.

„Ég hef ekki lengur líkamlega drifkraftinn, eldmóðinn eða allt sem þarf til að skora á sjálfan þig á efsta getustiginu. Ég er búin,“ sagði Barty.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem hún hættir því árið 2014 fór hún í tveggja ára frí frá tennis og talaði þá um að hún hafi verið útbrunnin.

Það sem kemur kannski mest á óvart er tímasetningin. Þetta er í byrjun keppnisársins og hún hefur unnið 25 af síðustu 26 leikjum sínum og þrjú af síðustu fjórum mótum. Það hafði skilað henni efsta sæti heimslistans. Það er um leið ákveðinn sjarmi yfir því að hætta á toppnum og það gerir svo sannarlega.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.