Sport

Hápunktur leiksins þegar við sóttum á vitlausa körfu

Andri Már Eggertsson skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með sigurinn
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með sigurinn Vísir/Bára Dröfn

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, var afar ánægður með sannfærandi sigur á Snæfelli 55-89. Sigurinn tryggði Breiðabliki farseðilinn í úrslitaleik VÍS-bikarsins í fyrsta sinn.

„Ég var mjög ánægður með stelpurnar mínar, við héldum athyglinni allan tímann. Snæfell gerði vel í byrjun að setja nokkra þrista sem gerði það að verkum að við þurftum að halda haus sem við gerðum,“ sagði Ívar Ásgrímsson í samtali við Vísi eftir leik. 

Í öðrum leikhluta saxaði Snæfell forskot Breiðabliks niður í fimm stig en þá kom sextán stiga áhlaup Breiðabliks. 

„Við fengum stopp varnarlega, það var komið þreytumerki í Snæfell og þristarnir hættu að fara ofan í. Þá gengum við á lagið og Michaela Kelly gerði það sem hún þurfti í leiknum og klikkaði ekki á skoti.“

„Þetta var góður sigur og er ég ánægður með karakterinn í liðinu að klára þennan leik með þessum hætti.“

Báðir leikirnir í undanúrslitum eru spilaðir í Smáranum líkt og úrslitaleikurinn í VÍS-bikarnum. Ívar fann þó ekki fyrir því að Breiðablik myndi græða á því þar sem Blikar byrjuðu fjórða leikhluta á að skjóta á eigin körfu. 

„Við vorum útilið í leiknum og af gömlum vana sóttum við á vitlausa körfu í fjórða leikhluta en það var örugglega hápunktur leiksins,“ sagði Ívar Ásgrímsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×