Innlent

Fékk tólf tonna lyftara á fótinn á sér og sendur heim í teygju­sokk

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Nokkur ár eru liðin frá vinnuslysinu en Halldór er nú hættur störfum. Hann hefur síðustu ár sótt sér læknisþjónustu í Reykjavík.
Nokkur ár eru liðin frá vinnuslysinu en Halldór er nú hættur störfum. Hann hefur síðustu ár sótt sér læknisþjónustu í Reykjavík. vísir/sigurjón

Bæjar­full­trúi Reykja­nes­bæjar telur að einka­rekin heilsu­gæsla gæti leyst ýmis vanda­mál svæðisins. Í­búar á Suður­nesjum hafa kvartað sáran undan þjónustu Heil­brigðis­stofnunar Suður­nesja sem virðist illa mönnuð og ná illa utan um á­lagið.

Eins og frétta­stofa hefur greint frá undan­farið eru margir í­búar á Suður­nesjum gríðar­lega ó­á­nægðir með þjónustu HSS.

Þar kvarta þeir helst undan því að rangar greiningar á heilsu­gæslunni séu allt of tíðar, oft á mjög al­var­legum kvillum.

Hall­dór Ár­manns­son er einn þeirra sem lenti í slíku fyrir nokkrum árum eftir vinnu­slys þegar lyftari keyrði á fótinn á honum.

„Þegar dekkið spyrnir, þetta eru stór dekk sko, þá er ég fastur hér undir,“ segir Hall­dór og sýnir hvar lyftarinn fór á fótinn á sér í mynd­bandinu sem fylgir fréttinni.

„En hann stoppar, sko. Ef hann hefði farið lengra þá hefði löppin bara farið.“

Hann var þá fluttur upp á HSS.

„Það voru ekki teknar neinar myndir af þessu eða neitt heldur settur bara teygju­sokkur utan um fótinn. Og ég sendur heim með verkja­lyf,“ segir Hall­dór.

Ekki eins og að verða fyrir reiðhjóli

Þegar verkurinn á­gerðist í fætinum á­kvað hann að láta skoða hann betur í Reykja­vík og reyndist þá þrí­brotinn.

„Það er dá­lítið kjána­legt að þeir hafi ekki einu sinni tekið mynd af þessu þegar þeir vissu að það fór 12 tonna lyftari á fótinn á mér. Það er ekki eins og þetta hafi verið reið­hjól,“ segir Hall­dór.

Hann er einn þeirra fjöl­mörgu íbúa Suður­nesja sem fer í dag frekar til læknis í bænum.

„Við hjónin lentum svo í fleiri vand­ræðum þarna og eftir það létum skrifa okkur inn á lækni í Reykja­vík eða heilsu­gæslu,“ segir hann.

Vill einkarekna heilbrigðisþjónustu á Suðurnes

Jóhann Frið­rik Frið­riks­son, bæjar­full­trúi Reykja­nes­bæjar og þing­maður kjör­dæmisins, kannast vel við vanda­mál HSS.

„Í langan tíma er maður búinn að vera að berjast fyrir betri heil­brigðis­þjónustu á Suður­nesjum og svæðið náttúru­lega fer ört stækkandi og miðað við við­miðið sem menn eru að gefa sér á höfuð­borgar­svæðinu þá þyrftu að vera þrjár heilsu­gæslur á Suður­nesjunum,“ segir Jóhann.

Jóhann Friðrik vill að einkageirinn létti undir með opinberri heilbrigðisþjónustu á svæðinu.vísir/einar

Hún er að­eins ein heilsu­gæslan á svæðinu núna sem fellur undir rekstur HSS.

Jóhann telur réttast að koma á fót einka­rekinni heilsu­gæslu á svæðinu til að létta undir með HSS.

„Þarna ætti bara að vera tæki­færi fyrir einka­aðila að manna heilsu­gæslu og það hefur gengið á­gæt­lega á undan­förnum árum að byggja það kerfi upp á höfuð­borgar­svæðinu. Og ég veit ekki betur en að það sé mannað þannig við þurfum auð­vitað bara að gera betur,“ segir Jóhann.


Tengdar fréttir

Kurr í Suðurnesjamönnum vegna HSS

Þingmaður Samfylkingarinnar segir vanda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja skrifast á vanrækslu stjórnvalda gagnvart Suðurnesjum. Kurr og óánægja sé í íbúum sem eigi skilið almennilega heilbrigðisþjónustu eins og aðrir landsmenn.

Ó­sáttir í­búar upp­nefna HSS „Slátur­hús Suður­nesja“

Íbúar Suðurnesja eru margir orðnir langþreyttir á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) og kalla hana öllum illum nöfnum. Þeir segja lækna gefa sér lítinn tíma til skoðunar og að rangar greiningar á alvarlegum kvillum séu allt of algengar.

Hætt að leita til HSS eftir það sem kom fyrir son hennar

Móðir, sem segir son sinn hafa verið sendan heim frá Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja með al­var­lega blæðingu eftir háls­kirtla­töku, er hætt að sækja heil­brigðis­þjónustu á svæðinu. Lífi drengsins var bjargað degi síðar með að­gerð eftir að hann fór að æla blóði. Við vörum við myndum sem fylgja fréttinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×