Innlent

Kjal­nesingar vilja slíta sig frá Reykja­­vík á ný

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Guðni Ár­sæll Indriða­son, formaður í­búa­sam­taka Kjalar­ness, segir borgina hafa vanrækt Kjalarnesið frá því að sveitarfélögin sameinuðust árið 1998.
Guðni Ár­sæll Indriða­son, formaður í­búa­sam­taka Kjalar­ness, segir borgina hafa vanrækt Kjalarnesið frá því að sveitarfélögin sameinuðust árið 1998. vísir/bjarni

Kjal­nesingar vilja nú margir slíta sig frá Reykja­víkur­borg og annað­hvort endur­heimta sjálf­stæði sitt eða sam­einast sveitar­fé­lagi sem er stað­sett nær hverfinu. Krafa er uppi um að fá að kjósa um þetta sam­hliða næstu sveitar­stjórnar­kosningum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan sveitar­fé­lagið Kjalar­nes­hreppur, sem var og hét, á­kvað að sam­einast Reykja­vík fyrir 24 árum. Nú vilja margir í­búanna endur­skoða þessa á­kvörðun.

„Öll svona upp­bygging og al­vöru­þjónusta miðast mjög mikið við 101 Reykja­vík. Þetta bitnar svoldið á okkur hér,“ segir Guðni Ár­sæll Indriða­son, for­maður í­búa­sam­taka Kjalar­ness.

Kjalar­nes er stærsta og jafn­framt fá­mennasta hverfi Reykja­víkur­borgar en þar búa í dag um þúsund manns.

Upplifir sig sem íbúa í einræðisríki

Hverfið liggur auð­vitað ekki upp við neitt annað hverfi borgarinnar heldur stendur eitt og sér milli Mos­fells­bæjar og Kjósar­hrepps.

En upp­lifa Kjal­nesingar sig sem Reyk­víkinga?

„Fyrir mitt leyti þá upp­lifi ég mig sem íbúa í ein­ræðis­ríki með því að búa hér og vera hluti af Reykja­vík,“ segir Guðni Ár­sæll.

Í­búa­fundur var haldinn í hverfinu í gær þar sem af­staðan var nokkuð skýr; í­búar vilja kjósa um það sam­hliða sveitar­stjórnar­kosningum hvort þeir verði aftur sjálf­stætt sveitar­fé­lag eða sam­einist jafn­vel frekar Mos­fells­bæ eða Kjósar­hreppi.

Fólkvangur, þar sem gömlu bæjarskrifstofurnar voru, er enn merktur hinu gamla sveitarfélagi Kjalarneshreppi sem var og hét.vísir/bjarni

„Á þessum fundi voru um fimm­tíu í­búar. Það var ein­hver sem hafði orð á því að það þyrfti nú tölu­vert stærra hús til að fá um fimm prósent íbúa úr öðrum hverfum borgarinnar. Og ég held að ég geti full­yrt það að það hafi nánast allir skrifað undir listann í gær sem mættu og mikill hugur í fólki að halda undir­skrifta­söfnuninni á­fram,“ segir Guðni Ár­sæll.

Kjal­nesingum þykir borgin þannig van­rækja hverfið al­ger­lega.

„Sko at­hyglin sem Kjalar­nesið fær virðist snúast um það að hér megi ekki gera neitt. Það er bara í 101 þar sem má fara fram upp­bygging. Það er oft litið svo á að Kjalar­nesið gleymist... ég held að þetta sé bara vís­vitandi gleymska, því miður,“ segir Guðni Ár­sæll, sem er allt annað en sáttur með borgar­stjórnina.

Hérna búa hraustir menn

Og fyrir utan gömlu bæjar­skrif­stofurnar má finna lista­verk, þessa vísu eftir Pétur Þórðarson, fyrr­verandi sveitar­stjóra Kjalar­nes­hrepps, sem stendur á gler­skúlptúr þar sem menn horfa í átt til Reykja­víkur. Hún lýsir ein­mitt við­horfi margra íbúa:

Á Kjalar­nesi hvessir enn

hvít­fyssir á sænum.

Hérna búa hraustir menn

hinir eru í bænum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×