Sport

Stjörnu­fans á fjö­miðla­torgi Super Bowl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íþróttahjónin Julie og Zach Ertz í viðtali. Julie er bandarískur landsliðsmaður í fótbolta og Zach leikmaður Arizona Cardinals.
Íþróttahjónin Julie og Zach Ertz í viðtali. Julie er bandarískur landsliðsmaður í fótbolta og Zach leikmaður Arizona Cardinals. Vísir/Eiríkur Stefán

Í aðdraganda Super Bowl, úrslitaleiks NFL-deildarinar, er miðdepill athyglinnar í ráðstefnuhöll Los Angeles. Alla vikuna hafa þar allir stærstu fjölmiðlar Bandaríkjanna – og reyndar þótt víðar væri leitað – haldið til og framleitt efni fyrir sína miðla.

Þetta er ekki nýtt af nálinni og er raunar órjúfanlegur hluti af uppbyggingunni fyrir Super Bowl sem að öðrum ólöstuðum er stærsti íþróttaviðburður hvers árs í Bandaríkjunum. Þessi suðupottur fjölmiðla nefnist „Radio row.“

Á þessu torgi má finna margar helstu sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna, sem og útvarpsstöðvar, vefmiðla og líka styrktaraðila. Á hverjum degi er ógrynni af efni framleitt – hvort sem er sjónvarps- og útvarpsþættir í beinni útsendingu eða hlaðvörp.

Undirbúningur fyrir tökur á þætti Pat McAfee sem nýtur mikilla vinsælda. McAfee var lengi sparkari sjálfur með Indianapolis Colts.Vísir/Eiríkur Stefán

Og stjörnunar láta sig ekki vanta. Hér er aragrúi bæði fyrrverandi og núverandi leikmanna úr NFL-deildinni sem ganga á milli bása og veita hvert viðtalið á fætur öðru. 

Fjölmiðlafulltrúar fylgja stjörnunum hvert fótmál og gæta þess að þeirra maður mætir á réttum tíma á réttan stað – auk þess að gæta þess að það sé örugglega enginn óviðkomandi að trufla þá.

Þættirnir frá „Radio row“ eru því stjörnum prýddir. Áhuginn er líka gagnkvæmur því stjörnurnar hafa oftar en ekki áhuga á að koma sér á framfæri – mögulega að undirbúa sig fyrir starf í fjölmiðlum að leikmannaferlinum loknum.

Meðfylgjandi eru myndir frá fjölmiðlatorgi Super Bowl í Los Angeles þetta árið.

Vísir/Eiríkur Stefán
Viðtöl út um allt.Vísir/Eiríkur Stefán
Mikið um dýrðir.Vísir/Eiríkur Stefán
Mikið um dýrðir.Vísir/Eiríkur Stefán
Fjölmiðlatorg Ofurskálarinnar.Vísir/Eiríkur Stefán

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×