Erlent

Enn bæta Rússar í við landamæri Úkraínu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úkraínski herinn æfir nú stíft.
Úkraínski herinn æfir nú stíft. AP Photo/Andrew Marienko

Gervihnattamyndir sýna að Rússar halda enn áfram að byggja upp herstyrk í grennd við landamæri Úkraínu. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að innrás Rússa gæti verið yfirvofandi á næstum dögum og vikum.

Talið er að Rússar hafi þegar komið 100 þúsund hermönnum í grennd við landamæri Úkraínu og Rússlands, auk tilheyrandi hergagna.

Leiðtogar vestrænna ríkja hafa leitað logandi ljósi að leiðum til að draga úr spennu á svæðinu. Rússar hafa neitað fyrir það að innrás sé yfirvofandi. Bandarískir embættismenn hafa þó dregið það í efa.

Þannig hvatti Joe Biden Bandaríkjaforseti samborgara sína sem kunna að vera staddir í Úkraínu þessa stundina til að yfirgefa ríkið hið snarasta.

Gervihnattamyndir sem Reuters birtir sýna að Rússar eru enn að byggja upp herafla sinn í grennd við landamærin.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að þróunin sé varasöm.

„Við erum í þeim glugga að við gætum séð innrás Rússa hefjast á hvaða tíma sem er og svo ég tali hreint út, það gæti gerst á meðan Ólympíuleikarnir standa yfir,“ sagði Blinken.

Þar vísaði Blinken í Vetrarólympíuleikana sem nú eru haldnir í Peking í Kína. Þeim lýkur 20. febrúar næstkomandi.

Sameiginleg æfing herja Rússlands og Hvíta-Rússlands hófst í Hvíta-Rússlandi í morgun og er áætlað að hún standi í tíu daga. Æfingin fer fram á sama tíma og áhöld eru um hvort að rússneski herinn hyggi á innrás inn í Úkraínu.

Rússnesk stjórnvöld hafa talað fyrir því að þau geti ekki sætt sig við að Úkraína geti á einhverjum tímapunkti gerst aðili að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar sagt að Úkraína sé fullvalda ríki og að ekki sé hægt að útiloka að Úkraína gerist NATO-aðili í framtíðinni.


Tengdar fréttir

Telur ólíklegt að Rússar standi við hótanir um innrás

Ólíklegt er að Rússar muni gera innrás í Úkraínu líkt og þeir hafa hótað en ógnin verður þó áfram til staðar, að sögn Vals Gunnarssonar, sagnfræðings og rithöfundar. Vesturlönd beri hins vegar mikla sök í spennunni á milli þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×