Erlent

Borgarstjórinn segir óákveðið hvort Bezos fái að taka brúna í sundur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Brúin stóð af sér miklar loftárásir í seinni heimsstyrjöldinni.
Brúin stóð af sér miklar loftárásir í seinni heimsstyrjöldinni. Getty

Borgarstjórinn í hafnaborginni Rotterdam í Hollandi hefur neitað því að búið sé að samþykkja að taka í sundur sögufræga brú til að hleypa ofursnekkju í eigu auðmannsins Jeff Bezos í gegn.

Fréttir þess efnis hafa vakið nokkra reiði en borgarstjórinn sagðist í samtali við Algemeen Dagblad hissa á fjaðrafokinu þar sem engin umsókn hefði borist, hvað þá að leyfi hefði verið gefið.

Þess ber að geta að AFP hafði fengið staðfest hjá talsmanni staðaryfirvalda að embættismenn hefðu gefið grænt ljós á að miðjuhluti brúarinnar, sem er kölluð De Hef af heimamönnum, yrði fjarlægður til að snekkja Bezos gæti siglt í gegn.

Brúin var reist árið 1877 en viðamiklum endurbótum á henni var lokið árið 2017 og þá var því heitið að hún yrði ekki tekin í sundur á nýjan leik. Erlendir miðlar greina hins vegar frá því að til Bezos hafi boðist til þess að greiða allan kostnað við verkið.

Snekkja auðjöfursins, sem er einn ríkasti maður heims, er of stór til að komast undir brúna. Hún er 40 metra há þar sem hún er hæst og 127 metrar á lengd, og kostaði 485 milljónir dollara.

Borgarstjórinn sagði að yfirvöld myndu taka ákvörðun þegar umsókn hefði verið skilað inn og upplýsingar lægju fyrir um það hvort hægt væri að taka brúna í sundur á þess að skemma hana og hvort Bezos myndi sannarlega greiða reikninginn.

„Þetta snýst um staðreyndir,“ sagði borgarstjórinn. „Þær þurfa að liggja fyrir.“


Tengdar fréttir

Fjarlægja sögufræga brú fyrir ofursnekkju Bezos

Borgaryfirvöld í Rotterdam hafa staðfest að þau hyggist taka niður sögufræga brú í borginni, svo glæný ofursnekkja auðkýfingsins Jeff Bezos, sem er í smíðum í borginni, geti siglt burt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×