Sport

CrossFit kóngurinn og CrossFit drottningin keppa saman á RIG 2022

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson eru í sama liði á Reykjavíkurleikunum í ár.
Anníe Mist Þórisdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson eru í sama liði á Reykjavíkurleikunum í ár. Samsett/Instagram

Það mun gefast langþráð tækifæri í CrossFit keppni Reykjavíkurleikanna í næsta mánuði. Það er nefnilega ekki á hverju degi sem við sjáum besta CrossFit fólk Íslands keppa hér á landi.

Anníe Mist Þórisdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa náð bestum árangri Íslendinga á heimsleikunum undanfarin ár og hafa öll komist þar á verðlaunapall á síðustu árum. Nú keppa þau öll hér heima á Íslandi.

Öll þrjú verða nefnilega í sviðsljósinu í CrossFit keppni RIG sem fer fram í aðstöðu Crossfit Reykjavíkur 5. febrúar.

Keppnin í ár verður liðakeppni með heimsklassa keppendum frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Ástralíu og Bandaríkjunum. Liðin fögur keppa í fimm greinum þar sem ein kona og einn karl eru í liði. Á níutíu mínútum keppa þau í ýmsum greinum sem reyna á styrk, úthald, hraða og tækni.

Kóngurinn og drottningin í íslenska CrossFit heiminum eru sameinuð á Reykjavíkurleikunum í ár en Björgvin Karl Guðmundsson og Anníe Mist Þórisdóttir eru sá karl og sú kona sem hafa náð bestum árangri Íslendinga í sögu heimsleikanna.

Anníe Mist hefur tvisvar orðið heimsmeistari og komist oftast íslenskra kvenna á verðlaunapall (sex sinnum) og Björgvin Karl er eini íslenski karlinn sem hefur komist á pall. Að þessum sinni mynda þau eitt svakalegt par í þessari keppni.

Katrín Tanja Davíðsdóttir mun síðan keppa á móti þeim ásamt hinum reynslumikla Khan Porter sem hefur keppt sex sinnum á heimsleikunum þar af fimm sinnum í einstaklingskeppninni.

Hin liðin eru skipuð þeim Andre Houdet og Julie Houghaard annars vegar og þau Rebecka Vitesson og Tola Morakinyo hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×