Sport

Lovísa um endurkomuna: „Það var gott að taka pásu frá íþróttahúsinu“

Andri Már Eggertsson skrifar
Lovísa Thompson sneri aftur á parketið í kvöld
Lovísa Thompson sneri aftur á parketið í kvöld vísir/hulda margrét

Lovísa Thompson sneri aftur í lið Vals eftir að hafa tekið sér hlé frá handbolta á afmælis deginum sínum 27. október síðastliðinn. Lovísa fékk þó ekki drauma endurkomu þar sem Valur tapaði gegn Stjörnunni 25-26.

„Mér fannst við klúðra þessu sjálfar. Varnarleikurinn hjá okkur var slakur og við fórum einnig afar illa með dauðafærin,“ sagði Lovísa eftir leik.

Lovísa var svekkt með hvernig liðið fór með dauðafærin og hefði hún viljað sjá betri skotnýtingu hjá Val.

„Mér fannst færanýtingin okkar fara með leikinn. Það vantaði meira sjálfstraust í okkur að fara í árás og láta vaða á markið.“

 Valur var yfir 23-21 en Stjarnan reyndist sterkari aðilinn á lokasprettinum sem varð til þess að Valur tapaði með einu marki.

„Vörnin var léleg á lokamínútunum Sara Sif var að verja mikið af dauðafærum en það hefði verið gaman að hjálpa henni meira en við gerðum.“

Lovísa tók sér hlé frá handbolta þann 27. október síðastliðinn þar sem hún hafði misst gleðina í handbolta. 

 Lovísa var ánægð með að vera mætt aftur í handbolta eftir að hafa tekið sér hlé frá íþróttinni.

„Ég fékk góða pásu. Fyrir mitt leyti var rosalega gott að fara út fyrir íþróttahúsið og prófa nýja hluti en að vera í handbolta og finnst mér ég hafa fengið hreinan hug eftir pásuna,“ sagði Lovísa að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.