Sport

Skotinn fljúgandi bjargaði sér fyrir horn | Þungarokkarinn engin fyrirstaða fyrir Wright

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gary Anderson er kominn í átta manna úrslit.
Gary Anderson er kominn í átta manna úrslit. Adam Davy/PA Images via Getty Images

Skotinn fljúgandi, Gary Anderson, vann nauman 4-3 sigur gegn Rob Cross í 16-manna úrslitum HM í pílukasti í kvöld eftir að hafa komist í 3-1. Þá vann Peter Wright öruggan 4-1 sigur gegn þungarokkaranum Ryan Searle.

Fyrsta viðureign kvöldsins var hins vegar viðureign James Wade og Martijn Kleermaker. Wade fór örugglega áfram, en hann vann fyrstu fjögur settin og tryggði sér 4-0 sigur og sæti í átta manna úrslitum þar sem hann mæti Mervyn King.

Önnur viðureign kvöldsins var svo viðureign Gary Anderson og Rob Cross. Anderson er í fimmta sæti heimslista PDC og varð heimsmeistari árin 2015 og 2016, en Cross situr í 11. sæti og varð heimsmeistari árið 2018, á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.

Cross vann fyrsta settið með minnsta mun, 3-2, áður en Anderson vann þrjú í röð, 3-0, 3-0 og 3-1, og var þá aðeins einu setti frá því að tryggja sér sigur.

Taugarnar virtust hins vegar ná til Anderson semklúðraði hverju útskotinu á fætur öðru. Cross nýtti sér mistök Skotans og vann næstu tvö sett, 3-1 og 3-2. Því þurfti oddasett til að skera úr um sigurvegara.

Anderson kom hausnum í lag á ögurstundu og vann lokasettið 3-1. Hann tryggsði sér þar með 4-3 sigur og sæti í átta manna úrslitum þar sem hann mætir Luke Humphries.

Þá átti Peter Wright ekki í miklum vandræðum með Ryan Searle í lokaviðureign kvöldsins.

Heimsmeistarinn frá 2020 vann fyrstu tvö settin 3-1, áður en Searle náð sér í sigur í þriðja settinu, einnig 3-1.

Wright reyndist þó of stór biti fyrir þungarokkarann, en hann vann fjórða settið 3-0 og það fimmta 3-1 og tryggði sér þar með 4-1 sigur og sæti í átta manna úrslitum þar sem Callan Rydz bíður hans.

Heimsmeistaramótið í pílukasti heldur áfram á nýju ári, en átta manna úrslitin verða spiluð á nýársdag. Eins og áður verð a tvær útsendingar, sú fyrri klukkan 12:30 og sú seinni klukkan 19:00, og allt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.

HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×