Lífið

Bjargar foreldrum á hverju kvöldi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hafdís syngur íslensk börn í svefn á hverju kvöldi.
Hafdís syngur íslensk börn í svefn á hverju kvöldi.

Tónlistarkonan Hafdís Huld Þrastardóttir hefur þrátt fyrir ungan aldur átt litríkan og fjölbreyttan tónlistarferil. Hún var aðeins 15 ára þegar hún sló fyrst í gegn með hljómsveitinni Gus Gus en hún var í hópnum sem stofnaði þá sveit og starfaði með þeim til ársins 1999.

Þá vann hún einnig mikið með breska rafdúettnum FC Kahuna og tók þátt í fjölda samstarfsverkefna með tónlistarfólki hér heima og erlendis. Hafdís sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu árið 2006, Dirty Paper Cup, en þá hafði hún einnig útskrifast úr tónskáldanámi úr London Centre of Contemporary Music. Síðan þá hefur Hafdís Huld sent frá sér einar sjö breiðskífur og ferðast marga hringi í kringum jörðina til að til að spila fyrir aðdáendur sína um allan heim. Síðustu ár hefur Hafdís hins vegar verið lang vinsælust hér heima, og það þrátt fyrir að ekki mikið fari fyrir henni. En hún átti söluhæstu plötu Íslands árið 2020 og tóku hún og maður hennar, Allisdair Wright, nýverið við viðurkenningu fyrir tvöfaldri platínuplötu fyrir breiðskífuna Vögguvísur sem hefur verið lang mest spilaða íslenska platan á Spotify undanfarin ár. Frosti Logason heimsótti Hafdísi nýverið á huggulegt sveitaheimili þeirra hjóna í Mosfellsdalnum þar sem þau hafa komið sér upp þægilegri upptökuaðstöðu en þau hafa undanfarin ár verið að framleiða efni sitt svo til beint frá býli eins og sagt er og það með frábærum árangri.

„Ég var búin að búa í London í tíu ár og þar var rosalega mikil læti og það er frábært þegar maður er að reyna koma sér áfram í tónlistinni. En það var alltaf markmiðið að ef ég myndi flytja til Íslands myndi ég flytja í algjör rólegheit og talaði alltaf um að vera með stúdíó þar sem ég gæti séð fjöllin. Það tókst og við fundum þennan stað,“ segir Hafdís.

Hafdís segir það vera mikil forréttindi að geta sem tónlistarkona unnið allt heima, sér í lagi í því ástandi ríkt hefur í heiminum undanfarin tvö ár en hún segist líka vera einstaklega heimakær manneskja sem líði best í faðmi fjölskyldu og vina. Í venjulegu árferði þarf Hafdís þó vegna vinnu sinnar að ferðast talsvert því plötur hennar hafa verið að fá góð viðbrögð um allan heim og þá sérstaklega í Bretlandi þar sem Hafdís bjó lengi og starfaði. En sem fyrr segir er það íslenska platan hennar, Vögguvísur sem allir eru að tala um í dag, en vinsældir hennar hafa komið Hafdísi sjálfri skemmtilega á óvart þar sem hún segist aldrei hafa getað ímyndað sér þær viðtökur sem hún hefur fengið.

„Ég var ófrísk af fyrsta barninu okkar og átti að vera á tónleikaferðalagi og það var búið að plana fyrir okkur fullt af tónleikum fyrir helming meðgöngunnar en svo var ég með grindargliðrun og komin á hækjur og svona og það er ekki alveg besta ástandið til að vera á tónleikaferðalagi svo við þurftum að aflýsa öllu. Mig langaði að gera tónlist og ákvað því að byrja taka upp og safna vögguvísum sem mig langaði að syngja fyrir barnið mitt. Þetta var í raun partur af þessari hreiðurgerð og maður fer í þann gír sérstaklega ef maður er að verða foreldri í fyrsta sinn. Svo þýddi ég nokkur lög af ensku sem maðurinn minn hafði alist upp við,“ segir Hafdís.

Bjóst ekki við að þetta yrði vinsælasta platan

Sem fyrr segir fékk platan nýverið viðurkenningu frá Félagi íslenskra hljómplötuframleiðanda en streymið á Vögguvísum á Spotify jafngildir samkvæmt ákveðnum reiknireglum yfir 20.000 seldum eintökum. Hvert og eitt lag plötunnar hefur fengið nokkrar milljónir spilanna en það má með sanni segja að tónlist Hafdísar sé streymt inn á flest öllum barnaheimilum landsins á hverju einasta kvöldi allan ársins hring.

„Við erum búin að vera með plötur sem hafa verið teknar upp í frægustu stúdíóum heims með frægum pródúsentum og svo er farið í rosa kynningarverkefni en svo er það þessi plata sem við gerðum í rólegheitunum sem ég er að tala um tíu árum seinna.“

Hafdís segir að Vögguvísuplatan sé ekki jafn frábrugðin annarri tónlist hennar og margir vilja halda. Hún segist hafa tekið meðvitað ákvörðun um að fara lágstemmdari leið strax í upphafi síns sóló ferils og fyrsta platan hennar hafi til að mynda bara verið tekin upp á sex rásir. Ekkert fansý risastúdíó eða glansmyndir. Þá hafi hún ákveðið að tónlist hennar ætti að vera beint frá hjartanu, og að það væri tónlist sem segði sögur.

Á plötunni Vögguvísur má finna gömul klassísk íslensk þjóðlög og erlendar vögguvísur í bland við frumsamið efni Hafdísar og eiginmanns hennar. Dvel ég í draumahöll eftir Þorbjörn Egner og Kristján frá Djúpalæk er sem stendur mest spilaða lagið á plötunni en Hafdís er lengi að hugsa sig um þegar hún er spurð að því hvort henni þyki meira vænna um einhver lög þarna en önnur.

Þakklát fyrir hverja einustu spilun

„Ég á uppáhaldslag á plötunni og það heitir Ljós. Mamma mín kallar mig ennþá ljósið sitt og ég geri það við börnin mín. Ég ákvað því að semja lag sem hefur mitt persónulega orðalag og einhverjar tilfinningar.“

En hvaða þýðingu hefur það fyrir tónlistarmann að fá tvöfalda platínu sölu í dag? Yfir 20.000 eintök seld, mest selda platan á Íslandi tvö ár í röð og yfir 29 milljón streymi sem gerir Vögguvísur að mest streymdu íslensku plötu allra tíma hér á landi, þýðir það að þau hjónin geti bara sest í helgan stein með vænan eftirlaunasjóð með engar áhyggjur af fjármálum framtíðarinnar?

„Þetta hefði verið betra tekjulega séð ef allir væru ennþá að kaupa geisladiska því maður er að fá lítið fyrir hvert einasta streymi en það safnast saman þegar platan er spiluð mikið. Og það hefur hjálpað ótrúlega sérstaklega á tímum eins og núna því maður getur ekki farið í tónleikaferðalög og við erum því ótrúlega þakklát fyrir hverja einustu spilun af Vögguvísum.“

Hafdís Huld segist líka vera sérstaklega þakklát fyrir tímasetninguna á þessari miklu velgengni plötunnar því þó að hún hafi verið fáanleg á Spotify í mörg ár núna þá má segja að hún hafi farið á algert flug á undanförnum tveimur árum sem er einmitt sá tími sem allir tónlistarmenn hafa verið meira og minna verkefnalausir vegna Covid. Hafdís var sjálf á leið í mikla tónleikaferð um Kanada og Bandaríkin þegar faraldurinn skall á og þurfti að setja öll þau plön á ís en hún hefur nýtt tímann vel og gaf til að mynda út plötuna Sumarkveðja fyrr á þessu ári og sendi síðan frá sér jólaplötuna Við jólatréð núna á dögunum en þær plötur eru auðvitað líka fáanlegar inn á öllum helstu streymisveitum.

Hér að ofan má sjá innslagið í heild sinni sem var á Stöð 2 í gærkvöldi í Íslandi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×