Sport

Barney fór örugglega áfram í endurkomunni | Wade hikstaði en er kominn í 32-manna úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Raymond van Barneveld tapaði gegn Michael van Gerwen í úrslitum Heimsmeistaramótsins árið 2018.
Raymond van Barneveld tapaði gegn Michael van Gerwen í úrslitum Heimsmeistaramótsins árið 2018. Getty/Bryn Lennon

Fimmfaldur heimsmeistari Raymond van Barneveld, eða Barney eins og hann er iðulega kallaður, snéri aftur á stóra sviðið í Ally Pally og vann öruggan 3-0 sigur gegn Laurence Ilagan í 96-manna úrslitum HM í pílukasti í kvöld. Þá vann James Wade 3-1 sigur gegn Maik Kuivenhoven.

Wade er þó líklega ekki allt of sáttur við spilamennsku sína í kvöld, en þegar þú ert í fjórða sæti heimslistans má búast við því að þú setjir pressu á sjálfan þig.

Wade vann fyrsta settið 3-1, og það sama var uppi á teningnum í öðru setti. Maik Kuivenhoven fór þó illa með hann í þriðja setti og vann alla þrjá leggina.

Þrátt fyrir hálf slappa spilamennsku í fjórða setti hafði Wade betur 3-1 og tryggði sér þar með sæti í 32-manna úrslitum, en getur líklega þakkað fyrir að hafa ekki verið að spila gegn betri andstæðingi í kvöld.

Í öðrum viðureignum kvöldsins hafði Luke Woodhouse betur gegn James Wilson 3-1 og Rusty-Jake Rodriguez vann 3-1 sigur gegn Ben Robb. Áður hafði bróðir Rusty-Jake Rodriguez, Rowby-John Rodriguez, tryggt sig áfram. Þetta er í fyrsta sinn í sjö ár sem bræður fara báðir áfram á sama Heimsmeistaramótinu.

Að lokum má ekki gleyma endurkomu fimmfalda heimsmeistararns Raymond van Barneveld á stóra sviðið, en hann lagði pílurnar á hilluna árið 2019. Barneveld fór nokkuð örugglega í gegnum andstæðing kvöldsins, Laurence Ilagan, með 3-0 sigri.

Barneveld mætir heimsmeistaranum frá 2018, Rob Cross, í 64-manna úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×