Erlent

Omíkron hefur greinst í 16 ríkjum Bandaríkjanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áhöfn Air China gengur vandlega varin í gegnum alþjóðaflugstöðina í Los Angeles.
Áhöfn Air China gengur vandlega varin í gegnum alþjóðaflugstöðina í Los Angeles. AP/Jae C. Hong

Omíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur nú fundist í 16 ríkjum Bandaríkjanna en um er að ræða nokkra tugi tilfella. Margir smituðu eru fullbólusettir og með væg einkenni. Delta-afbrigðið er enn það sem greinist í 99,9 prósent tilvika.

Ríkin sem um ræðir eru Kalifornía, Colorado, Connecticut, Hawaii, Louisiana, Maryland, Massachusetts, Minnesota, Missouri, Nebraska, New Jersey, New York, Pennsylvanía, Utah, Washington og Wisconsin.

Anthony Fauci, aðalráðgjafi Bandaríkjaforseta í málum er varðar smitsjúkdóma, segir augljóst af gögnum frá Suður-Afríku að Omíkron smitist greiðlegar en önnur afbrigði en enn sem komið er sé ekki útlit fyrir að afbrigðið valdi alvarlegri sjúkdóm.

Hins vegar sé nauðsynlegt að hafa varann á og bíða og sjá hvað rannsóknir leiða í ljós.

Yfirvöld í Suður-Afríku greindu frá því í gær að 11.125 hefðu greinst með Covid-19 sólahringinn á undan en aðeins einn lést. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin setur sig enn upp á móti þeim ferðatakmörkunum sem mörg ríki hafa gripið til gagnvart ríkjum í suðurhluta Afríku og sendifulltrúi Nígerí í Bretlandi hefur kallað þær „aðskilnaðarstefnu“.

Stjórnvöld í Þýskalandi hyggjast leggja fram frumvarp sem kveður á um skyldubólusetningu starfsmanna í ákveðnum heilbrigðisstörfum frá 16. mars næstkomandi. Þá stendur til að heimila tannlæknum, dýralæknum og lyfjafræðingum að bólusetja fólk í einhvern takmarkaðan tíma.

The Guardian greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×