Erlent

Nýsmituðum fjölgað um rúm þrjú hundruð prósent á viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá skimun í Suður-Afríku. Fjöldi nýsmitaðra hefur farið úr 2.465 í 11.535 á einni viku.
Frá skimun í Suður-Afríku. Fjöldi nýsmitaðra hefur farið úr 2.465 í 11.535 á einni viku. AP/Denis Farrell

Þeim sem smitast af Covid-19 í Suður-Afríku hefur fjölgað hratt á undanförnum dögum. Í gær var tilkynnt að 11.535 greindust smitaðir á undanförnum sólarhring og var hlutfall jákvæðra sýna 22,4 prósent.

Langflestir eru að smitast af Omíkron-afbrigði kórónuveirunnar en vísindamenn í landinu segja vísbendingar um að afbrigðið eigi auðvelt með að smita þá sem hafi verið bólusettir og þá sem hafi smitast áður.

Þá hefur innlögnum einnig fjölgað töluvert.

Joe Phaahla, heilbrigðisráðherra Suður-Afríku, lýsti því yfir í morgun að fjórða bylgja Covid-19 gengi nú yfir landið. Hann sagði nýsmituðum hafa fjölgað um rúm þrjú hundruð prósent á einungis sjö dögum. Smituðum færi hratt fjölgandi víðsvegar um landið.

Í frétt Pretoria News er haft eftir Phaahla að útlit sé fyrir að þessi bylgja muni hafa alvarlegri afleiðingar en síðustu þrjár. Á einni viku hefði nýsmituðum fjölgað úr 2.465 í 11.535.

Eins og áður segir greindust 11.535 smitaðir í gær og hlutfall jákvæðra sýna var 22,4 prósent. Þann 29. nóvember greindust 2.273 smitaðir og hlutfall jákvæðra sýna var 10,7 prósent.

25. nóvember greindust 2.465 smitaðir og var hlutfallið 6,5 prósent. Þann 21. nóvember greindust 687 smitaðir og hlutfall jákvæðra sýna var 3,4 prósent.

Það var 24. nóvember sem Suður-Afríka tilkynnti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni að omíkron-afbrigðið hefði greinst þar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að enn eigi eftir að sannreyna hvort omíkron-afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði og hvort það valdi alvarlegri veikindum. Þá sé ekki vitað með vissu hvort það komist hjá bóluefnum.

Í frétt Reuters fréttaveitunnar er haft eftir sérfræðingum WHO að miðað við þau gögn sem fyrir liggja virðist sem ekki þurfi að breyta aðferðum gegn kórónuveirunni.

Bólusetningar, örvunarskammtar, samkomutakmarkanir, grímuburður og aðrar aðgerðir geti stöðvað dreifinguna. Ekki þurfi að reiða á aðgerðir á landamærum og ferðabönn.


Tengdar fréttir

Lyf­lækninga­deild lokað: Omíkron ein­angrað við Akra­nes

Lyf­lækninga­deild Sjúkra­hússins á Akra­nesi hefur verið lokað tíma­bundið og eru sjúk­lingar hennar og starfs­fólk í sótt­kví. Beðið er eftir niður­stöðu skimana en sá sem greindist fyrst með omíkron-af­brigði kórónu­veirunnar á landinu var sjúk­lingur á deildinni.

Munum aldrei snúa aftur til tímans fyrir faraldur

Þær fregnir berast frá Suður-Afríku að einstaklingar sem hafi sýkst af omíkron-afbrigði kórónuveirunnar séu mestmegnis með mild og flensulík einkenni. Magnús Gottfreðsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, segir þó of snemmt að segja til um hvort nýja afbrigðið sé vægara en þau fyrri.

Meina óbólusettum aðgang að börum, kvikmyndahúsum og öðru

Ríkisstjórn Þýskalands hefur sett fjölmargar og stórar þúfur í veg óbólusettra Þjóðverja. Angela Merkel, fráfarandi kanslari, og Olaf Scholz, verðandi kanslari, ræddu við ríkisstjóra Þýskalands í dag og samþykktu þau harðar aðgerðir gegn mikilli útbreiðslu Covid-19 í Þýskalandi um þessar mundir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×