Enski boltinn

Spáir því að Newcastle eyði allt að þrjú hundruð milljónum punda í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Wilson fagnar marki sínu fyrir Newcastle United á móti Norwich City á St James' Park í vikunni.
Callum Wilson fagnar marki sínu fyrir Newcastle United á móti Norwich City á St James' Park í vikunni. AP/Mike Egerton

Joe Cole, fyrrum leikmaður Chelsea og Liverpool, er viss um að eigendur Newcastle séu reiðubúnir að eyða stórum upphæðum í nýja leikmenn þegar félagsskiptaglugginn opnar í byrjun næsta mánaðar.

Cole býst við því að Newcastle United reyni að bjarga sér úr slæmum málum á botni ensku úrvalsdeildarinnar með því að safna liði við fyrsta tækifæri. Það má aftur kaupa leikmenn í janúar og það verður jafnframt fyrsti opni glugginn síðan hinir ríku eigendur frá Sádí Arabíu eignuðust félagið.

Newcastle hefur enn ekki unnið leik eftir fjórtán umferðir og eftir að Eddie Howe tók við sem stjóri í nóvember hefur liðið tapað á móti Arsenal og gert 1-1 jafntefli á móti Norwich þrátt fyrir að vera manni fleiri.

„Þeir munu eyða tvö til þrjú hundruð milljónum punda í janúar. Þessir eigendur eru ekki komnir hingað til að leika sér,“ sagði Joe Cole sem var sérfræðingur í útsendingu Amazon Prime Video.

„Þetta eru ríkustu eigendur sem ég hef séð og ég held að þeir munu henda peningum í liðið í næsta mánuði. Þetta verða örugglega fjórir til fimm leikmenn sem koma. Um leið og þeir ná að vinna fyrsta leikinn þá geta þeir líka komist á skrið,“ sagði Cole.

Cole er líka ánægður með ráðninguna á Eddie Howe. „Hann þekkir ensku úrvalsdeildina og leikmenn bæta sig undir hans stjórn. Ég hélt að þetta sé frábær ráðning og að hann sé rétti maðurinn í starfið,“ sagði Cole.

Það er ekki allt vonlaust í leikmannahópi Newcastle þrátt fyrir slæmt gengi. Hann er þannig spenntur fyrir bæði Allan Saint-Maximin og Callum Wilson.

„Saint-Maximin er mjög góður leikmaður og ég held að leikerfið sem Eddie spilar eigi eftir að henta honum vel en þar er hann að fá boltann hátt upp á vellinum. Callum Wilson skorar alltaf mörk og það er maður sem liðin í kringum þá hafa ekki, mann sem hefur sannað sig sem markaskorari í þessari deild,“ sagði Cole.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.