Sport

Enn að jafna sig af meiðslum eftir að hafa glímt við Fjallið | Vill hefnd gegn Ponzi­nibbio

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnar Nelson hefur verið meiddur undanfarna mánuði.
Gunnar Nelson hefur verið meiddur undanfarna mánuði. vísir/getty

Bardagakappinn Gunnar Nelson hefur látið lítið fyrir sér fara undanfarið. Hann ræddi við vefinn MMA Fighting nýverið um hvað á daga hans hefur drifið og af hverju hann hefur ekki verið í sviðsljósinu. Það kom margt áhugavert upp úr spjallinu.

Gunnar var eins og áður sagði í viðtali sem má sjá hér að neðan. Þar ræðir hann gamnislag sem hann átti við Hafþór Júlíus Björnsson, eða Fjallið, í maí á þessu ári.

„Þú hefur eflaust séð myndbandið af mér og Fjallinu að rúlla um gólfið,“ segir Gunnar í viðtalinu og heldur áfram.

„Það er þarna sem það gerðist (meiðslin). Ég hef ekki einu sinni talað við hann um það, ég er ekki viss um að hann viti af því. Þetta er í fyrsta sinn sem ég segi hvenær ég varð fyrir meiðslunum,“ bætti hann við er myndband af gamnislag þeirra er sýndur.

Gunnar segir að þegar Hafþór Júlíus hafi nýtt þyngd sína og lagst á hann þá hafi eitthvað smollið, nokkrum sekúndum síðar var sársaukinn orðinn gríðarlegur en Gunnar ákvað að segja ekkert á þeim tímapunkti.

„Ég ætla að reyna klára þessa lotu og klára þetta. Svo gerist þetta aftur og þarna er ég í virkilegum vandræðum með handlegginn á mér og að ná andanum. Ég hugsaði samt með mér að ég þyrfti að bíða eftir að hann myndi opna sig því það var of seint að fara stöðva bardagann þarna og segja að ég hefði meitt mig.“

„Ég hefði mögulega átt að hætta þarna því kannski gerði ég illt verra en ég veit það ekki,“ sagði Gunnar að endingu.

Þá kemur einnig fram í viðtalinu að Gunnar Nelson vill hefnd gegn Santiago Ponzinibbio. Þeir mættust sumarið 2017 og fór Ponzinibbio með sigur af hólmi eftir að hafa potað í auga Gunnars á meðan bardaganum stóð.

Það verður áhugavert að sjá hvort Gunnari verður af ósk sinni en það er ljóst að Ponzinibbio á ekki von á góðu ef þeir mætast að nýju.

MMAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.