Enski boltinn

Roberto Mancini nú sagður koma til greina sem næsti stjóri Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini hefur gert frábæra hluti með ítalska landsliðið.
Roberto Mancini hefur gert frábæra hluti með ítalska landsliðið. Getty/Christian Charisius

Manchester United var að tilkynna nýjan knattspyrnustjóra en þar sem hann er bara ráðinn fram á sumar þá halda vangavelturnar áfram í erlendum fjölmiðlum.

Athyglisvert nafn er nú komið á listann yfir mögulega næsta framíðarstjóra liðsins.

The Telegraph segir að United geti hugsað sér að semja við manninn sem gerði Ítala að Evrópumeisturum síðasta sumar og þann sem vann fyrsta stóra titil Manchester City í 35 ár þegar liðið varð enskur bikarmeistari 2011.

Tímabilið á eftir vann Manchester City svo fyrsta enska meistaratitil félagsins í 44 ár.

Ralf Rangnick á að stýra United fram á vor og verða síðan sérlegur ráðgjafi hjá félaginu eftir það. Hvort hugmyndir hans og Mancini ná saman er ekki alveg fyrirsjáanlegt.

Ítalir þurfa að fara í gegnum umspil til að tryggja sig inn á HM í Katar á næsta ári og þar hugsanlega að fara í gegnum Cristiano Ronaldo og félaga í Portúgal.

Fari svo að Ítalir sitji eftir þá gæti Mancini mögulega hætt með ítalska landsliðið. Það gæti síðan opnað fyrir möguleikann á að hann komi til Manchester United.

Mancini er langt frá því að vera sá eini á listanum en þar eru áfram Mauricio Pochettino, Erik ten Hag og Brendan Rodgers samkvæmt fréttum að utan.

Roberto Mancini er 57 ára gamall og hefur náð góðum árangri hvar sem hann hefur starfað. Undir hans stjórn vann Manchester City bæði ensku deildina og enska bikarinn og þá gerði hann Internazionale þrisvar að ítölskum meisturum og tvisvar að ítölskum bikarmeisturum.

Ítalir urðu svo Evrópumeistarar undir hans stjórn í sumar eftir sigur á Englendingum í vítakeppni í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×