Erlent

Óða­got þegar peningum rigndi yfir hrað­brautina

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fjöldi fólks stoppaði á hraðbrautinni og hirti upp talsverða fjármuni.
Fjöldi fólks stoppaði á hraðbrautinni og hirti upp talsverða fjármuni. Skjáskot

Seðlum hreinlega rigndi á hraðbraut í Kaliforníu í Bandaríkjunum í gær, sem olli því að hraðbrautin lokaðist þegar ökumenn námu staðar og freistuðu þess að ná sér í skjótfenginn gróða. Peningarnir komu úr sendiferðabíl sem virðist ekki hafa verið nægilega vel lokaður.

Myndbönd af vettvangi sýna vel það óðagot sem greip um sig meðal ökumanna, sem olli því að umferðarteppa myndaðist. Lögregla kom á vettvang og handtók einhverja, meðan öðrum var gert að skila fjármununum, enda ekki þeirra eign.

„Af einhverri ástæðu flæddu peningar út úr brynvörðum bíl,“ hefur BBC eftir lögreglumanni.

„Það voru seðlar svífandi um allt.“

Upphæðir sem ekki verða teknar upp af götunni

Bandaríski heilsuáhrifavaldurinn Demi Bagby var á svæðinu þegar atvikið átti sér stað og birti myndband frá vettvangi.

„Þetta er það ruglaðasta sem ég hef séð,“ heyrist Bagby meðal annars segja.

BBC greinir frá því að bandaríska alríkislögreglan, FBI, sé komin í málið. Fólk sem hafi hirt seðla af hraðbrautinni og stungið af sé þá hvatt til þess að stíga fram og skila peningunum. Að öðrum kosti gæti það átt á hættu að vera ákært.

„Ef fjöldinn allur af sjónvörpum myndi detta úr flutningabíl á hraðbrautinni, þá máttu ekkert bara taka þau,“ er haft eftir hraðbrautarlögreglumanninum Jim Bettencourt.

Þá er greint frá því að yfir tíu manns hafi þegar séð að sér og skilað fjármunum sem það tók. Sumir hafi náð að hafa á brott umtalsverða fjármuni í reiðufé, þó nákvæm upphæð liggi ekki fyrir.

„Fólk er að koma til baka með háar upphæðir. Þetta voru miklir peningar,“ er haft eftir lögreglumanni sem hefur unnið að málinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.