Þægilegt hjá Manchester City gegn Everton

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Raheem Sterling skoraði fyrsta markið í dag
Raheem Sterling skoraði fyrsta markið í dag EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester City sýndi mátt sinn og megin þegar að liðið vann Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag, 3-0. Everton sáu ekki til sólar og sigurinn var aldrei í hættu.

City byrjuðu strax mun betur og sköpuðu sér urmul af færum á fyrsta hálftíma leiksins án þess að ná að skora. Jordan Pickford bjargaði nokkrum sinnum vel og tréverkið sá um rest.

Á 44. mínútu tókst City að brjóta ísinn og var þar að verki Raheem Sterling. Eftir mikinn atgang í vítateig Everton tókst þeim að hreinsa boltann frá. Boltinn barst til Cancelo sem átti stórkostlega utanfótarsendingu inn fyrir á Raheem Sterling sem kláraði færið vel. 1-0 og þannig var staðan í hálfleik.

Það voru ekki liðnar tíu mínútur af síðari hálfleiknum þegar heiðbláir Ciry menn höfðu tvöfaldað forystuna. Eftir flotta sókn tókst Everton að hreinsa boltann frá en þó ekki lengra en svo að Rodri fékk boltann til sín. Hann þakkaði pent fyrir sig og gjörsamlega lúðraði boltanum upp í samskeytin. Frábært mark.

Hinn ungi Cole Palmer byrjaði leikinnEPA-EFE/PETER POWELL

City gerði svo endanlega úti um leikinn á 86. mínútu þegar að Bernando Silva skoraði. Cole Palmer átti þá skor sem hrökk af varnarmanni inn í teiginn þar sem Silva var tilbúinn og skoraði. 3-0 og leikurinn búinn enda fjaraði hann út eftir markið.

Manchester City heldur í við Chelsea á toppi deildarinnar og eru með 26 stig í öðru sæti, stigi á undan Liverpool. Everton eru hins vegar í frjálsu falli og hafa tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og sitja í ellefta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.