Sport

Losa sig við Beckham á afmælisdaginn hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Odell Beckham Jr. hefur spilað sinn síðasta leik með Cleveland Browns í NFL deildinni.
Odell Beckham Jr. hefur spilað sinn síðasta leik með Cleveland Browns í NFL deildinni. AP/David Richard

Eftir mikla vandræðaviku þá hafa forráðamenn Cleveland Browns ákveðið að losa sig við útherjann Odell Beckham Jr.

Odell hafði verið rekinn af æfingu tvo daga í röð og nú er ljóst að málin verði ekki leyst. Aðilar náðu samkomulagi um starfslok og hann getur fljótlega farið að leita sér að nýju félagi í NFL-deildinni.

Það ótrúlega við þetta er að Cleveland losar sig við hann á 29 ára afmælisdaginn hans. Kannski er þetta ígildi afmælisgjafar enda ljóst að það var ekkert gott að fara koma út veru hans innan raða Cleveland Browns.

Odell var mjög óánægður með þá þjónustu og það hlutverk sem hann hefur fengið hjá Cleveland liðinu og eftir að félaginu mistókst að skipta honum áður en glugginn lokaði í vikunni þá funduðu leikmaðurinn og félagið um starfslok.

Beckham var um tíma einn mest spennandi leikmaður NFL-deildarinnar en fljótlega eftir að hann gerði risasamning við New York Giants fór að halla undan fæti hjá honum.

Honum var skipt til Cleveland Browns í mars 2019 en hefur verið mikið meiddur síðan hann kom þangað. Frammistaðan hefur heldur ekki verið merkileg þegar hann hefur verið leikfær. Samband hans og leikstjórnandans Baker Mayfield var ekki gott og Beckham var farinn að kvarta mikið yfir þjónustunni í gegnum sitt fólk.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×