Innlent

Már leiðréttir tölurnar: Innan við tuttugu vilja ekki láta bólusetja sig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Már Kristjánsson segir 480 starfsmenn Landspítalans ekki bólusetta. Yfir 460 þeirra hafi góðar ástæður fyrir því.
Már Kristjánsson segir 480 starfsmenn Landspítalans ekki bólusetta. Yfir 460 þeirra hafi góðar ástæður fyrir því. Vísir/SigurjónÓ

Már Kristjánsson, formaður farsóttarnefndar Landspítalans, segir innan við tuttugu starfsmenn Landspítalans ekki vilja láta bólusetja sig. Fram kom í pistli hans á vef Landspítalans í gær að 600 starfsmenn spítalans væru óbólusettir. Réttur fjöldi er hins vegar 480 manns segir hann í dag.

Í bréfi sem Már, forstöðumaður lyflækninga og bráðaþjónustu Landspítalans, sendi starfsfólki í gær kom fram að 600 starfsmenn Landspítalans væru óbólusettir. Fréttastofa ræddi við Má í gær um þessa tölu sem mörgum þótti ansi há.

Már ræddi tölurnar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og leiðrétti tölurnar sem hann sagði frá í gær. Fjöldi óbólusettra starfsmanna Landspítalans næmi 480 starfsmönnum. Af þeim væru innan við tuttugu sem vildu ekki láta bólusetja sig.

„Það kemur á daginn að þetta eru ekki alveg fyllilega réttar tölur. Þetta voru 480 manns ef ég man rétt. Það eru ástæður fyrir því að fólk hefur ekki verið bólusett. Margir hafa verið barnshafandi og hafa ekki þegið bólusetningu þess vegna og í rauninni samkvæmt ráðleggingu. Síðan eru sumir með þess háttar veikindi að það er ekki heppilegt að bólusetja. Þannig að það eru í rauninni ekki nema innan við 20 manns sem hafa ekki viljað fá bólusetningu,“ sagði Már í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×