Fótbolti

Walter Smith látinn

Sindri Sverrisson skrifar
Walter Smith fagnaði fjölda titla sem knattspyrnustjóri Rangers og er sannkölluð goðsögn í sögu skoska stórveldisins.
Walter Smith fagnaði fjölda titla sem knattspyrnustjóri Rangers og er sannkölluð goðsögn í sögu skoska stórveldisins. Getty/Julian Finney

Walter Smith, fyrrverandi knattspyrnustjóri Rangers og Everton, og fyrrverandi landsliðsþjálfari Skotlands, er látinn, 73 ára að aldri.

Smith er næstsigursælasti stjóri í sögu skoska stórveldisins Rangers en hann stýrði því í tvígang, fyrst á árunum 1991-1998 og svo aftur 2007-2011. Alls vann Rangers 21 titil undir hans stjórn en aðeins Bill Struth hefur gert betur hjá félaginu.

Smith féll frá á sama ári og Rangers unnu skoska meistaratitilinn í fyrsta sinn frá því að hann lét af störfum árið 2011.

Smith stýrði einnig Everton í fjögur ár og skoska landsliðinu á árunum 2004-2007.

Sem leikmaður lék Smith yfir 200 leiki fyrir Dunee United en þar hóf hann einmitt þjálfaraferil sinn aðeins 29 ára gamall, eftir að hafa þurft að hætta vegna meiðsla. Hann var aðstoðarmaður Sir Alex Ferguson sem stýrði Skotum HM 1986 og varð svo aðstoðarmaður Graeme Souness hjá Rangers áður en hann tók sjálfur við stjórninni hjá félaginu árið 1991.

„Smith lætur eftir sig eiginkonu, börn og barnabörn sem við hugsum öll til og biðjum fyrir á þessum erfiðu tímum,“ sagði Douglas Park, stjórnarformaður Rangers.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.