Erlent

Fundu beinagrind drengs og þrjá bræður hans sem höfðu verið yfirgefnir í marga mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Börnin fundust í yfirgefinni íbúð í Houston í Texas.
Börnin fundust í yfirgefinni íbúð í Houston í Texas. Getty/Raymond Boyd

Lögregluþjónar í Houston í Bandaríkjunum fundu í gær lík níu ára barns í yfirgefinni íbúð í borginni. Auk þess fundust þrír drengir sem sögðu bróðir þeirra hafa verið dáinn í íbúðinni í um það bil ár.

Börnin sem fundust á lífi eru sjö, tíu og fimmtán ára.

Houston Chronicle hefur eftir Ed Gonzalez, fógeta, að svo virðist sem börnin hafi verið skilin eftir í íbúðinni í langan tíma. Á blaðamannafundi í gærkvöldi ítrekaði hann að um langan tíma væri að ræða og hefur líkamsleifum barnsins sem dó verið lýst á þann veg að lögregluþjónar hafi fundið beinagrind barnsins.

Gonzales sagði að svo virðist sem að elsta barnið hafi reynt að hugsa um yngri börnin. Öll börnin séu vannærð og hafi þau verið flutt á sjúkrahús. Ekkert þeirra virðist hafa sótt skóla.

Í frétt AP Fréttaveitunnar segir að móðir barnanna og kærasti hennar hafi fundist og þau hafi verið yfirheyrð. Gonzales sagði aðstæður í íbúðinni hafa verið hræðilegar og hann hefði aldrei vitað annað eins á ferli sínum.

Hér að neðan má sjá blaðamannafund lögreglunnar frá því í gær. Sá fundur var haldinn áður en vitað var hve lengi börnin höfðu verið í íbúðinni og áður en búið var að finna móður þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×