Meðal dagskrár sem er í boði á Borgarbókasafni er bingó, hrekkjavökuföndur og tónlistarsmiðja. Á Listasafni Reykjavíkur er boðið upp á leirmótun og hugmyndasmiðjur. Hægt er að nálgast dagskrár borgarinnar í haustfríinu hér.
Ágústa Rós Árnadóttir viðburðastjóri segir mikla dagskrá í boði á vegum Árbæjarsafns, Landnámssýningarinnar og á Sjóminjasafni sem heyra undir Borgarsögusafn.
„Við erum alltaf með gott úrval af viðburðum og fræðslutengdu efni í haustfríinu. Á morgun klukkan tvö ætlum við t.d. í tímaflakk um höfuðborgina með rithöfundunum Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur. Þær ætla að segja krökkunum og fjölskyldum þeirra frá ýmsu afar spennandi í borginni,“ segir Ágústa.
Ágústa segir að allir viðburðir í vetrarfríinu séu ókeypis og þá sé frítt inn á öll söfn fyrir fullorðna í fylgd með börnum.
„Börnin fá alltaf frítt inn á söfnin en þegar foreldrar koma með í haustfríinu fá þeir líka frítt inn,“ segir Ágústa.
Þá er líka mikil dagskrá í tilefni af haustfríinu 22.-26. október hjá Menningarhúsum Kópavogs.