Sport

Dæmdur í 21 leiks bann fyrir að fela það að hann væri ekki bólusettur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Evander Kane í leik með liðu San Jose Sharks.
Evander Kane í leik með liðu San Jose Sharks. AP/Jeff Chiu

Evander Kane spilar ekki með liði sínu á næstunni eftir að NHL-deildin dæmdi hann í mjög langt leikbann vegna sóttvarnarbrota.

Kane var í gær dæmdur í 21 leiks bann fyrir að senda inn falsað bólusetningarvottorð til síns félags, San Jose Sharks, og um til NHL-deildarinnar. Hann fær ekki borgað þennan tíma sem hann tekur út bannið.

Evander Kane er þrítugur og hefur spilað í NHL-deildinni í meira en áratug. Hann er með 264 mörk og 242 stoðsendingar 769 leikjum í deildinni.

Það er ekki skylda fyrir leikmenn í bandarísku íshokkídeildinni að láta bólusetja sig en þeir leikmenn sem eru bólusetningar losna aftur á móti við alls konar sóttvarnavesen og eru því frjálsari.

Kane fékk bannið fyrir að hafa viljandi reynt að brjóta sóttvarnarreglur deildarinnar.

Launin hans fara öll í öryggissjóð leikmanna en það er hluti af samkomulagi leikmannasamtakanna og NHL-deildarinnar.

Evander Kane sendi frá sér afsökunarbeiðni. „Ég vil biðja liðsfélaga mína afsökunar sem og allt San Jose Sharks félagið og stuðningsmenn Sharks fyrir að brjóta sóttvarnarreglur NHL,“ sagði Kane meðal annars í yfirlýsingu sinni.

Þetta er í sjötta sinn sem Kane er dæmdur í bann. Hann fékk tveggja leikja bann fyrir grófan leik árið 2014, ein leik í bann fyrir að brjóta reglur liðsins þegar hann var hjá Buffalo Sabres 2018, einn leik í bann í úrslitakeppni fyrir ljótt brot 2019, þriggja leikja bann fyrir að drulla yfir dómara 2019 og loks þriggja leikja bann fyrir olnbogaskot í leik með Sharks árið 2019.

Þetta eru ekki góðir dagar fyrir Kane en kona hans, Anna Kane, er að sækja um skilnað og hefur sakað hann um heimilisofbeldi.

Það er þó ekki eins og fjarvera hans sé áfall fyrir San Jose Sharks liðið því Kane hefur ekki enn spilað með liðinu og tók heldur ekki þátt í æfingabúðunum fyrir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×