Erlent

Bandaríkin opna landleiðina og flugleiðina fyrir bólusetta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á landamærum Kanada og Bandaríkjanna.
Á landamærum Kanada og Bandaríkjanna. Getty/Matthew Hatcher

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hyggjast opna landamærin að Kanada og Mexíkó í nóvember fyrir fullbólusetta einstaklinga. Þau höfðu áður tilkynnt að landið yrði opnað ferðalöngum flugleiðina einhvern tímann í næsta mánuði.

Breytingin hefur það í för með sér að þeir sem hafa getað ferðast óhindrað yfir landamærin, svo sem vöruflutningabifreiðastjórar og nemar, þurfa að framvísa bólusetningarvottorði frá janúar.

Sá munur verður á ferðalögum landleiðina og flugleiðina inn í landið að á landamærunum að Kanada og Mexíkó verður aðeins gerð krafa um bólusetningarvottorð en á flugvöllum verður fólk skikkað til að framvísa bæði bólusetningarvottorði og neikvæðu PCR prófi.

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) lítur svo á einstaklingar séu fullbólusettir ef tvær vikur eru liðnar síðan þeir fengu seinni skammtinn af bóluefnunum frá Pfizer og Moderna eða einn skammt af bóluefninu frá Johnson & Johnson.

Þá munu þeir sem hafa verið bólusettir með bóluefni sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lagt blessun sína yfir, til dæmis Astra Zeneca, einnig teljast fullbólusettir samkvæmt New York Times.

Enn sem komið er liggur ekki ljóst fyrir hvernig yfirvöld hyggjast taka á þeim sem hafa verið bólusettir með tveimur bóluefnum, það er að segja fengið efni frá einum framleiðanda í fyrra skiptið en öðrum í seinna.

Miðillinn CBC greindi frá því 25. september síðastliðinn að sóttvarnastofnunin teldi þá ekki fullbólusetta sem hefðu verið bólusettir með sitthvoru efninu. Þó væru gerðar undantekningar þegar einstaklingar hefðu neyðst til að þiggja sitthvort bóluefnið ef bæði væru svokölluð mRNA bóluefni, það er að segja frá Pfizer eða Moderna.

Það uppfyllti hins vegar ekki skilyrði að hafa þegið einn skammt af AstraZeneca og einn af mRNA bóluefni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.