Fótbolti

Alfreð boðinn velkominn heim til Grindavíkur

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Elías Jóhannsson er nýr þjálfari Grindavíkur.
Alfreð Elías Jóhannsson er nýr þjálfari Grindavíkur. Twitter/@umfg

Alfreð Elías Jóhannsson, sem síðast stýrði kvennaliði Selfoss, hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Grindavíkur í fótbolta.

Grindvíkingar hófu leit að nýjum þjálfara þegar ljóst varð að Sigurbjörn Hreiðarsson yrði ekki áfram við stjórnvölinn. Sigurbjörn tók við liðinu eftir að það féll úr efstu deild og stýrði því í tvö ár í Lengjudeildinni.

Á nýafstaðinni leiktíð endaði Grindavík í 7. sæti með 26 stig eða 21 stigi á eftir ÍBV sem endaði í 2. sæti og komst upp um deild.

Alfreð er Grindvíkingur og lék með liði Grindavíkur í efstu deild fjögur tímabil. Á þjálfaraferli sínum hefur hann meðal annars þjálfað karlalið Ægis og svo ÍBV um skamma hríð árið 2016, áður en hann tók við kvennaliði Selfoss í 1. deild árið 2017. 

Undir stjórn Alfreðs komst Selfoss strax upp í úrvalsdeild og festi sig þar vel í sessi, og liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn árið 2019. Alfreð hætti hjá Selfossi við lok síðustu leiktíðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.