Innlent

Hreyfi­hamlaðir megi leggja í al­menn stæði á göngu­götum

Árni Sæberg skrifar
Álitsleitandi hafði lagt í almennt stæði á göngugötunni Skólavörðustíg.
Álitsleitandi hafði lagt í almennt stæði á göngugötunni Skólavörðustíg. Vísir/Vilhelm

Handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að leggja á hann stöðubrotsgjald. Handhafinn hafði lagt bíl sínum í almennt stæði á göngugötu en Bílastæðasjóður taldi honum aðeins heimilt að leggja í sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða á göngugötu.

Í áliti umboðsmanns segir að í málinu hafi reynt á hvort framangreind afstaða Bílastæðasjóðs sé sam­rýmanleg lögum og þá þannig að heimilt hafi verið að sekta álitsleitanda, sem handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða, fyrir að leggja í göngu­götunni umrætt sinn.

Í áliti sínu benti umboðsmaður á að í umferðarlögum væri gengið út frá því að umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu væri bönnuð. Aftur á móti væru gerðar undantekningar frá því, þar á meðal hvað varðaði umferð handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða.

Af orðalagi þeirra lagaákvæða yrði ekki annað ráðið en að heimilt væri að leggja ökutækjum, sem féllu undir framangreinda undanþágu, í göngugötu en þá skyldi þeim lagt í merkt stæði. Yrði þá að leggja til grundvallar að þar væri um að ræða öll merkt stæði við göngugötu.

Þá yrði einnig að líta til þess að í umferðarlögum væru mælt fyrir um að handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða hefði annars vegar heimild til að leggja í bifreiðastæði, sem væri ætlað fyrir fatlað fólk, og hins vegar í gjaldskyld stæði, án sérstakrar greiðslu. Hvergi væri vikið að því í lögunum að annað ætti við þegar lagt væri í göngugötur

Það var niðurstaða umboðsmanns að ekki væri hægt að fallast á þann lagaskilning að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða gætu eingöngu lagt í sérmerkt stæði á göngugötum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.