Sport

Halldór Harri: Sex marka tap gaf ekki rétta mynd af leiknum

Andri Már Eggertsson skrifar
Haraldur Harri var ánægður með varnarleik liðsins
Haraldur Harri var ánægður með varnarleik liðsins Vísir/Bára Dröfn

HK tapaði í annað skiptið fyrir Val í september. Leikurinn einkenndist af miklum varnarleik beggja liða. Valur vann leikinn með sex mörkum 17-23. Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari HK, var svekktur með úrslitin eftir leik.

„Í bæði fyrri og seinni hálfleik kom kafli sem við vorum ragar sóknarlega. Mér fannst vörnin hjá okkur í dag frábær.“

„Burt séð frá því að Valur skoraði þrjú mörk þegar þrjár mínútur voru eftir. Mér fannst sex marka tap ekki lýsa leiknum heldur var hann spennandi nánast alveg til enda,“ sagði Halldór Harri eftir leik.

Sóknarleikur HK var á löngum köflum afar slakur og tók Halldór Harri undir að hans stelpur voru oft á tíðum sjálfum sér verstar.

„Valur spilar þétta og góða vörn á sex metrunum. Þetta var stöngin út hjá okkur. Það kom síðan smá stress í okkar leik sem endaði með töpuðum boltum.“

HK skoraði 17 mörk í dag sem er tveimur mörkum betur en í síðasta leik. Halldór Harri hafði þó litlar áhyggjur af sóknarleiknum eftir aðeins tvo leiki. 

„Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Ef við höldum áfram að fá á okkur undir 24 mörk þá á það að duga. Við verðum bara að horfa inn á við og nýta seinni bylgjuna betur,“ sagði Halldór Harri að lokum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.