Erlent

Metfjöldi rostunga skráður á rússneska heimskautinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá rostunganýlendu á Svalbarða.
Frá rostunganýlendu á Svalbarða. Getty/Peter Orr.

Rússneskir vísindamenn hafa skýrt frá metfjölda skráðra Atlantshafs-rostunga á Frans Jósefslandi, eyjaklasa austur af Svalbarða. Jafnframt segjast þeir hafa fundið stærstu einstöku rostunganýlendu í sögu heimskautsrannsókna á einni af eyjum rússneska eyjaklasans.

Norski fréttamiðillinn The Barents Observer fjallar um málið og vitnar til fréttatilkynningar Þjóðgarðamiðstöðvar norðurslóða Rússlands, sem birt var fyrr í mánuðinum. Þar er greint frá leiðangri rússneskra náttúrufræðinga sem kominn væri aftur til Arkhangelsk úr norðuríshafinu eftir umhverfisvöktun annað árið í röð þar sem skráðar voru sjaldgæfar tegundir dýra, jurta og sveppa.

Vísindamennirnir skoðuðu 34 eyjar á Frans Jósefslandi, Novaya Zemlya og Victoriu-eyju. Með gögnum úr myndavélum, sem komið hafði verið fyrir árið áður, uppgötvuðu þeir meðal annars nýjar fæðustöðvar rostunganna. Þá voru rostungar merktir og gervitunglasendum komið fyrir á sextán dýrum til að fylgjast með ferðum þeirra.

Til að telja fjölda rostunga flugu vísindamennirnir drónum yfir stærstu rostunganýlendur eyjanna. Samkvæmt bráðabirgðatölum skráðu þeir yfir sjö þúsund rostunga, tvöfalt fleiri en í fyrra. Þá fundu þeir einnig stærsta einstaka búsvæði rostunga í sögu norðurheimskautsrannsókna, á nyrstu eyju Frans Jósefslands, Eva-Liv eyjunni.

Frá vísindaleiðangri til Frans Jósefslands í fyrra. Skip frá rússneska norðurflotanum sigldi þá með leiðangursmenn.Mynd/Rússneski norðurflotinn.

Sum svæðanna, sem rannsökuðu voru, eru þjóðgarðar í Rússlandi. Að sögn leiðangursstjórans, Svetlönu Artemyeva, er umráðasvæði þjóðgarðanna ákjósanlegt til að fylgjast með Atlantshafs-rostungnum, þar sem að minnsta kosti einn stór hópur tegundarinnar býr þar. Þá er eyjaklasinn sagður nokkuð þægilegur til að fylgjast með kópum þar sem vegalengdir eru litlar og mikill fjöldi rostungalátra.

Rannsóknir benda til að sérstakur stofn rostunga hafi verið við Ísland við landnám, sem fjallað var um í þessari frétt Stöðvar 2 árið 2018:

Hér má sjá rostung á Hornafirði í vikunni:


Tengdar fréttir

Rostungur sökkti gúmbát rússneska norðurflotans

Sjóliðar rússneska norðurflotans og leiðangursmenn frá rússneska landfræðifélaginu voru hætt komnir þegar rostungur réðst á bát þeirra og sökkti þegar þeir reyndu landtöku á eyju í Norður-Íshafi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.