Innlent

Finnbogi Jónsson er látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Finnbogi Jónsson var mikill áhugamaður um nýsköpun og kynnti sér nýjustu tækni um borð í Oddeyrinni EA í júlí síðastliðnum.
Finnbogi Jónsson var mikill áhugamaður um nýsköpun og kynnti sér nýjustu tækni um borð í Oddeyrinni EA í júlí síðastliðnum.

Finnbogi Jónsson verkfræðingur og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja lést þann níunda september síðastliðinn í Vancouver í Kanada. Finnbogi lét mjög að sér kveða í íslensku atvinnulífi og sat í stjórn fjölmargra félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Greint er frá andláti Finnboga á vefsíðu Samherja.

Finnbogi var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað frá 1986 til 1999, forstjóri Íslenskra sjávarafurða hf. 1999, aðstoðarframkvæmdastjóri SÍF, starfandi stjórnarformaður Samherja hf. 2000 til 2005 og framkvæmdastjóri SR-mjöls h/f frá 2003 til 2006. Finnbogi var framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2006 til 2010 og sat auk þess í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana, svo sem háskólaráði Háskólans á Akureyri.

„Áhrifa starfa Finnboga gætir víða í íslensku atvinnulífi og við sem förum fyrir Samherja stöndum í mikilli þakkarskuld við hann. Ákvarðanir sem Finnbogi tók eða lagði til, voru vel ígrundaðar og byggðar á þekkingu og glöggu innsæi. Finnbogi hafði einstakt lag á að leiða saman fólk til samstarfs og viðskipta sem skilað hefur atvinnulífinu ávinningi og þar með þjóðarbúinu. Hans er sárt saknað með djúpri virðingu,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir Finnboga hafa verið dreng góðan, mikinn Akureyring sem hafi ávallt borið hag bæjarins fyrir brjósti.

„Jákvæðni og framsýni var áberandi í fari Finnboga enda hafði hann einstakt lag á að fá fólk til liðs við metnaðarfull og framsækin verkefni. Þátttaka Finnboga Jónssonar í íslensku atvinnulífi hefur verið áhrifarík, sérstaklega í sjávarútvegi og nýsköpun. Við hjá Samherja kveðjum góðan vin og samstarfsmann með einlægu þakklæti,“ segir Þorsteinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×