Dæmdir menn eiga rétt á að sækja um reynslulausn eftir tíu ára fangelsi í Noregi. Breivik hlaut þyngsta mögulega dóm en hægt er að framlengja hann ótímabundið. Hann skaut 69 manns til bana í sumarbúðum Verkamannaflokksins á Úteyju í júlí árið 2011. Fyrr um daginn hafði bílsprengja sem hann sprengdi við skrifstofu forsætisráðherra í Osló orðið átta manns að bana.
Hulda Karlsdottir, saksóknarinn í máli Breikvik, segir Reuters-fréttastofunni að ósk hans um reynslulausn verði tekin fyrir hjá svæðisdómstól í Þelamörk þar sem hann situr í fangelsi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær málið verður tekið fyrir eða hvar. Lögmenn Breivik vilja að hann fái að koma fyrir dómara en saksóknarar að málið verði tekið fyrir í fangelsinu.
Breivik aðhylltist öfgahægrihugmyndir og hvíta þjóðernishyggju um að múslimar væru að leggja undir sig Evrópu. Áður en hann framdi fjöldamorðin birti hann langorða stefnuyfirlýsingu þar sem hann fór ofan í saumana á þeim skoðunum sínum.