Innlent

Einn lagður inn á spítala eftir innbyrðingu kremsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg er forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg er forstjóri Lyfjastofnunar. Júlíus Sigurjónsson

Ástæða þess að Lyfjastofnun og embætti landlæknis sendu út áréttingu þess efnis að lyfið Soolantra, sem inniheldur ivermektín, ætti einungis að nota útvortis er sú að einstaklingur var lagður inn á Landspítalann eftir að hafa innbyrt lyfið, sem er í kremformi. Mbl.is sagði fyrst frá.

Í áréttingunni, sem send var út í morgun, kom fram að stofnanirnar tvær, teldu sig hafa áreiðanlegar upplýsingar um að sjúklingar með COVID-19 hafi tekið lyfið um munn og rökstuddan grun væri uppi um að það hafi haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér. 

Lyfið er í kremformi og er einungis ætlað til notkunar útvortis á húð, en ekki til inntöku.

Í samtali við Vísi staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, að áréttingin hafi verið send út eftir að einstaklingur lagðist inn á Landspítalann, eftir að hafa innbyrt lyfið.

Segir Rúna að Lyfjastofnun og landlæknir hafi talið mikilvægt að „breðgast við frekar fljótt og örugglega inn vegna þess að þarna er einstaklingur sem er að innbyrða lyf,“ sem eigi að nota útvortis.

Búið er að takmarka ávísun lyfsins við sérfræðinga í húðsjúkdómum á meðan embætti landlæknis kannar útbreiðslu lyfsins. Lyfjastofnun og embætti landlæknis meti næstu skref.

Lyfið er í kremformi, einungis ætlað til notkunar á húð til meðferðar við bólum og þrymlum sem fylgja húðsjúkdómnum rósroða.

Aukaverkanir geti verið margskonar og er ítrekað lyfið sé alls ekki ætlað til inntöku. Forðast skuli að bera kremið á augnlok, varir og slímhúðir, svo sem í nefi, munni, augum eða í meltingarvegi.

„Aukaverkanir sem geta hlotist af inntöku kremsins eða ofskömmtun ivermektíns geta verið: útbrot, bjúgur, höfuðverkur, sundl, þróttleysi, ógleði, uppköst og niðurgangur. Fleiri aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um eru: krampar, ósamhæfðar vöðvahreyfingar, mæði, kviðverkir, náladofi og ofsakláði,“ segir í áréttingunni.

Áður hefur verið tilkynnt um að Lyfjastofnun hafi upplýsingar um notkun sníkjudýralyfsins ivermektín við Covid-19 hér á landi, en ekkert bendir þó til þess að lyfið gagnist í baráttunni við kórónuveiruna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×